141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

trúnaður í störfum nefnda.

[15:55]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Öðruvísi mér áður brá, en í þessu málefni varðandi Evrópusambandið er ég bara nokkuð sammála hv. þm. Jóni Bjarnasyni. [Hlátur í þingsal.] Ég tel einmitt mikilvægt sem stendur í ályktuninni frá utanríkismálanefnd frá árinu 2009 að ferlið sé gegnsætt og áríðandi að menn taki dýpri umræðu um þetta mál, ekki bara hálftímaumræðu þar sem einhverjar fyrirsagnir eru settar fram. Ég fagna því sérstaklega og vek athygli hæstv. forseta á því að bæði hv. formaður utanríkismálanefndar og aðrir hafa hvatt hæstv. forseta að setja slíka umræðu á dagskrá. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan árið 2009, ekki síst m.a. út af vandræðagangi ríkisstjórnarinnar varðandi umræðuferlið allt saman. Þann vandræðagang er ekki hægt að leysa fyrir luktum dyrum í hv. utanríkismálanefnd. Við verðum að draga þetta hingað fram og það er alveg augljóst að við þurfum að fara gaumgæfilega og betur yfir það hver samningsmarkmið okkar eru.

Ég er enn þá þeirrar skoðunar að við eigum að klára aðildarviðræðurnar. En ég vil hafa málið uppi á borðum og ég vil fá tækifæri til að ræða það í þingsal.