141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

trúnaður í störfum nefnda.

[15:57]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Yfirlýsing hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra var mjög afdráttarlaus varðandi þá spurningu hvort til greina kæmi að leyfa innflutning á lifandi dýrum. Hæstv. ráðherra svaraði því afdráttarlaust að það kæmi ekki til greina.

Það hefur ríkt mikið vantraust á allt þetta viðræðuferli frá því að það hófst og það hefur auðvitað litast mjög mikið af því sem sagt var í upphafi, mjög miklir svardagar voru hafðir uppi í upphafi og einnig áður en ákvörðun var tekin um viðræðuferlið. Það gerir að verkum að jafnvel þótt hæstv. ráðherra hafi gefið þessa afdráttarlausu yfirlýsingu fyrir sína hönd og annarra vandamanna breytir það ekki því að auðvitað á að skrifa afdráttarlaust í samningsmarkmið okkar það sem hæstv. ráðherra var nákvæmlega að segja áðan. Um það snýst þetta mál núna.

Við vitum að þetta mál er í miklum vandræðagangi hjá hæstv. ríkisstjórn en það er hins vegar mjög mikilvægt að ræða það efnislega. (Forseti hringir.) Ég tek undir að í fyrsta lagi er eðlilegt að haldinn sé opinn fundur fyrir fjölmiðla um þetta tiltekna mál í utanríkismálanefnd og í öðru lagi að fram fari alvöruumræða af lengra taginu í sölum Alþingis.