141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

aflaregla.

218. mál
[15:59]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og menn vita hefur verið í gildi aflaregla varðandi þorskveiðar frá fiskveiðiárinu 1995/1996. Lengst af hefur aflareglan gengið út á það, gróft sagt, að miðað hefur verið við að veiðin væri ekki umfram 25% af viðmiðunarstofni sem er þorskur fjögurra ára og eldri. Ýmsar undanþágur hafa síðan verið gerðar frá þessu, ég ætla ekki að rekja þær, en síðustu árin hefur verið miðað við að veiðihlutfallið væri 20%. En vegna þess að að hálfu er tekið tillit til aflamarks síðasta árs og veiðistofninn hefur verið að stækka er ljóst að veiðiálagið er núna innan við 20%. Við erum í raun ekki með 20% veiðireglu heldur 17–18% veiðireglu sem er langlægsta veiðiálag sem ég hygg að skjöl nái yfir.

Þegar þessi veiðiregla var innleidd á sínum tíma var það auðvitað umdeilt, en árið 2009 var ákveðið í ríkisstjórninni að senda ICES, Alþjóðahafrannsóknaráðinu, bréf þar sem óskað væri eftir því að ráðið legði mat sitt á sjálfbærni og virkni 20% veiðireglunnar. Jafnframt þessu hefur verið talsverð umræða um það upp á síðkastið að skynsamlegt kynni að vera að hafa veiðireglu eða aflareglu sem næði til fleiri tegunda. Í því sambandi hefur einkanlega verið rætt um gullkarfa, ufsa og ýsu. Nýverið, á haustdögum, kom fram á opinberum vettvangi að tillögur þar að lútandi hefðu verið lagðar fyrir hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um að setja á laggirnar aflareglu um veiðar á þessum þremur tegundum. Í þeim tillögum væri lagt á ráðin með það hvernig sú aflaregla ætti nákvæmlega að líta út þannig að hægt væri að taka til hennar afstöðu.

Ég nefni þetta vegna þess að í júní 2009 skilaði nefnd, sem hæstv. fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafði skipað um þessi mál, áliti sínu og kynnti viðhorf sín til þessa máls. Nú er málið komið lengra, í vor var ákveðið samráðsferli og hæstv. ráðherra fékk síðan þessar tillögur.

Þess vegna hef ég lagt fram á Alþingi fyrirspurn til hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra í þremur liðum sem er svohljóðandi:

1. Hvaða tillögur liggja nú fyrir um aflareglu við veiðar á ýsu, gullkarfa og ufsa?

2. Hver er afstaða ráðherra til þessara tillagna?

3. Hver hefði orðið úthlutun aflamarks í þessum tegundum á yfirstandandi fiskveiðiári ef tillögum að aflareglu hefði verið fylgt?

Í þessu sambandi er mjög mikilvægt að árétta eitt. Hvaða skoðun sem menn hafa á aflareglu er aðalatriðið að menn hafi sannfæringu fyrir því að stofnmat á hverjum tíma sem er framkvæmt af Hafrannsóknastofnun endurspegli veruleikann. Við vitum það til dæmis varðandi ýsuna sem er ein þeirra þiggja (Forseti hringir.) fisktegunda sem um ræðir að þar er gríðarlega mikil tortryggni ríkjandi. Mat Hafrannsóknastofnunar virðist ekki vera í samræmi við veruleikann sem sjómenn og útvegsmenn (Forseti hringir.) mæta þessa dagana.