141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

aflaregla.

218. mál
[16:02]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Varðandi fyrstu spurninguna, svo ég noti tímann í að reyna að svara spurningunum beint, um hvaða tillögur liggi fyrir um aflareglu við veiðar á ýsu, gullkarfa og ufsa, er því til að svara að tillögurnar eins og þær standa ganga í fyrsta lagi út á aflareglu fyrir ýsu sem er í grófum dráttum svohljóðandi:

Aflamark næsta fiskveiðiárs verði 40% af áætluðu magni 45 sm og stærri ýsu í upphafi næsta aflamarksárs.

Síðan er önnur regla sem gæti tekið til við tilteknar aðstæður, þ.e. ef áætluð stærð hrygningarstofns á sama tímapunkti er undir skilgreindum varúðarmörkum sem eru þá 45 þús. tonn. Þá skuli lækka veiðihlutfallið þannig að það sé að hámarki 0,4 sinnum stærð hrygningarstofns í upphafi næsta almanaksárs deilt með varúðartölunni 45 þús. tonn.

Í öðru lagi liggur fyrir aflaregla um ufsa sem er svohljóðandi:

Aflamark næsta árs verði 20% af viðmiðunarstofni fjögurra ára og eldri ufsa og aflamarki síðasta fiskveiðiárs. Það er mjög sambærileg regla við það sem er í gildi í þorskinum.

Þar er líka lögð til varúðarregla ef hrygningarstofn á úttektarári fer niður fyrir svokölluð gátmörk eða „Btrigger“ sem lagt er til að verði 65 þús. tonn í tilviki ufsa. Þá skal lækka veiðihlutfallið með hlutfallinu stærð hrygningarstofns á úttektarári deilt með 65. Ekki er tekið tillit til aflamarks síðasta fiskveiðiárs í þeirri fráviksreglu.

Fyrir gullkarfann liggja fyrir svohljóðandi tillögur:

Aflamark næsta fiskveiðiárs byggi á að meðalveiðidauði 9–19 ára karfa verði ekki hærri en 0,097. Sömuleiðis ef hrygningarstofn fari niður fyrir gátmörk, sem lagt er til að verði 220 þús. tonn, lækki veiðidauði sem ráðgjöf byggir á með hlutfallinu stærð hrygningarstofns í upphafi úttektarárs deilt með 220.

Í tilviki gullkarfans er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því að reynt verði að láta regluna taka til Íslands, Grænlands og Færeyja.

Í öðru lagi er spurt hver sé mín afstaða til þessara tillagna. Henni væri kannski best svarað ef tíminn leyfði með því að rekja þau samskipti sem hafa verið t.d. á þessu ári. Í upphafi árs skrifaði ég Hafrannsóknastofnun og fór fram á að stofnunin legði af stað með aflareglur í ýsu, ufsa og karfa á grundvelli þeirrar vinnu sem fyrir lá. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að við eigum að byggja á langtímanýtingarstefnu og aflareglur eru það tæki sem menn hafa kannski mest verið að þróa og horfa til. Við höfum þar af leiðandi unnið þessa vinnu áfram á þeim grundvelli fyrir tegundirnar þrjár með samráði við umhverfisráðuneytið og fjölmarga aðila innan greinarinnar. Vissulega eru skoðanir skiptar, því er ekki að leyna, en kostir þess að festa í sessi viðurkenndar aðferðir til að grundvalla á langtímanýtingarstefnu eru ótvíræðir. Það er ljóst að því fylgir agi. Það eykur að sjálfsögðu líkur á því að fiskveiðistjórn okkar teljist standast grundvallarkröfur um sjálfbærni og að vottun sé möguleg í kjölfarið sem getur haft heilmikið að segja fyrir markaðsstarf.

Staða málsins núna er að þegar hefur verið sent bréf til Alþjóðahafrannsóknaráðsins vegna ufsa og ýsu þar sem ráðið er beðið um að meta framangreindar tillögur út frá varúðarreglunni og hvort þær séu líklegar til að leiða til hámarks sjálfbærrar nýtingar, eða „maximum sustainable yield“ eins og það er kallað, þegar til lengri tíma er litið.

Varðandi gullkarfann er málið aðeins skemmra á veg komið þar sem verið er að leita samráðs við Grænland og Færeyjar og reyna að ná saman um að senda síðan í kjölfarið sameiginlegt erindi til Alþjóðahafrannsóknaráðsins í sama skyni. Þetta er að sjálfsögðu nauðsynlegt þar sem um deilistofn er að ræða að nokkru leyti með þessum nágrönnum okkar, þó langmestur hluti tegundarinnar komi í okkar hlut.

Þriðja spurningin er: Hver hefði orðið úthlutun aflamarks í þessum tegundum á yfirstandandi fiskveiðiári ef tillögum að aflareglu hefði verið fylgt? Svarið er að þá hefði aflamark í ýsu orðið 32 þús. tonn í stað þeirra 36 þús. tonna sem nú eru. Í gullkarfanum hefði aflamarkið orðið 45 þús. tonn, sem er það sama og við erum að taka í ár, þó þannig að ef við hefðum t.d. tekið tillit til veiða Grænlendinga og Færeyinga í fyrra sem voru um 2.300 tonn hefðu 42.700 af því komið í okkar hlut. (Forseti hringir.) Í þriðja lagi hefði aflareglan fyrir ufsa gefið 51 þús. tonn í staðinn fyrir þau 50 þús. tonn sem er úthlutað aflamark í ár.