141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

matsáætlun vegna framkvæmda á Vestfjarðavegi 60.

69. mál
[16:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni Einari K. Guðfinnssyni fyrir að taka þetta mál hér upp. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra tveggja, þriggja spurninga.

Í fyrsta lagi: Er hæstv. ráðherra fullviss um að minni málaferli og tafir muni verða með því að fara aðra leið en svokallaða B-leið? Í öðru lagi: Hæstv. ráðherra sagði að það féllu öll rök með því að fara svokallaða B-leið en hafði áhyggjur af því að þetta mundi allt dragast. Mig langar að fá betri svör við því hvers vegna B-leiðin má ekki vera inni í matsáætluninni, ef það liggur fyrir að því verði hafnað, því að öðruvísi geta menn ekki tekið ákvörðun um að fara leiðir sem kosta 2,4 milljörðum meira. Það hlýtur að þurfa að vera meiri innstæða en kom fram hjá hæstv. ráðherra áðan. Síðan langar mig að segja að mér finnst þetta vera dálítið keimlíkt því, af því hann nefndi þverun fjarða, og þegar Gilsfjörðurinn var brúaður, að þá voru gerðar miklar athugasemdir og miklar heimsendaspár hvað það mundi hafa í för með sér, sem hafa betur fer ekki gengið eftir. Mér finnst þetta vera (Forseti hringir.) svona svipaðar athugasemdir og gerðar eru við B-leiðina.