141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

framkvæmd þingsályktunar um flug til Grænlands.

70. mál
[16:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra um hvernig unnið hafi verið að þingsályktunartillögu sem samþykkt var á Alþingi á sínum tíma, 16. mars 2011. Í henni var hæstv. ráðherra falið að gera úttekt á kostnaði og mögulegum leiðum til að tryggja að á Ísafjarðarflugvelli væri nægjanlegur búnaður og aðstaða til að unnt væri að sinna þaðan flugi til Grænlands. Úttektina og niðurstöður hennar átti að kynna samgöngunefnd Alþingis eins fljótt og auðið væri.

Þetta mál hefur þann aðdraganda að ég mælti á sínum tíma, 19. október 2010, fyrir þingsályktunartillögu um millilandaflug um Ísafjarðarflugvöll. Flutningsmenn ásamt mér voru hv. þingmenn Norðvesturkjördæmis.

Tillögugreinin eins og hún var orðuð á þeim tíma var svohljóðandi, með leyfi virðulegs forseta:

„Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að tryggja að á Ísafjarðarflugvelli sé nægjanlegur búnaður og aðstaða til að hægt sé að sinna þaðan millilandaflugi með flugvélum sem núna hafa heimild til þess að fljúga um völlinn.“

Það var rakið nokkuð í greinargerðinni að tíðkað hafi verið millilandaflug frá Ísafirði og sérstaklega til Grænlands á sínum tíma en síðan hafi verið lokað fyrir það vegna þess að talið hafi verið að það þyrfti viðbótarbúnað til að hægt væri að sinna þessu flugi. Eins og tillagan bar með sér má segja að að baki henni hafi búið sú hugsun að endurvekja mætti flug milli Ísafjarðarflugvallar og Grænlands. Við vorum í raun ekki að setja háleitari markmið en að reyna að tryggja að útbúnaður væri til staðar og aðstaða á Ísafjarðarflugvelli sem gæti leyft það flug. Ég hygg að ekkert okkar hafi verið með drauma um að hægt væri að hefja millilandaflug í stórum stíl til Evrópulanda eða Ameríku eða annarra heimssvæða. Hugmyndin var fyrst og fremst sú að stíga þetta skref að reyna að tryggja að þjónustu við Grænland yrði að einhverju leyti sinnt frá Ísafjarðarflugvelli.

Við sjáum að í þessu eru fólgnir gríðarlega miklir efnahagslegir hagsmunir. Það er mikil uppbygging á Grænlandi núna og aðstæður þar eru þannig að þeir þurfa að sækja sér þjónustu, aðstoð og vinnuafl við þá uppbyggingu, m.a. hingað til Íslands. Íslendingar hafa unnið þarna í talsverðum mæli og er um að ræða gagnkvæma hagsmuni Íslendinga og Grænlands. Í þessu felast augljóslega mikil tækifæri fyrir þá staði sem munu þjóna samskiptum Íslands og Grænlands á næstunni.

Í ljósi þess að landfræðileg lega Vestfjarða við Grænlandi er eins og allir þekkja og með tilvísun til að þessari þjónustu var að einhverju leyti sinnt frá Ísafjarðarflugvelli og fyrir utan að það getur verið mjög hagkvæmt að geta stytt þessar flugleiðir og fljúga frá Ísafjarðarflugvelli — þegar allt þetta er lagt saman finnst manni hníga að því mikil rök (Forseti hringir.) að hægt sé að sinna þessu flugi og þessari þjónustu frá Ísafjarðarflugvelli, en þá (Forseti hringir.) verður aðstaðan að vera til staðar.