141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

framkvæmd þingsályktunar um flug til Grænlands.

70. mál
[16:34]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ísafjarðarflugvöllur er í dag skilgreindur sem skráður lendingarstaður sem þjónar innanlandsflugi. Þetta hefur meðal annars í för með sér að um flugvöllinn gilda vægari og kostnaðarminni kröfur í öryggismálum annars vegar og í flugvernd hins vegar.

Innanríkisráðuneytið fól Isavia ohf. að veita umsögn um flug til Grænlands um Ísafjarðarflugvöll en fyrirtækið hefur fjallað um málið í nokkurn tíma. Isavia ohf. hefur stillt upp þremur kostum í stöðunni. Flugmálastjórn metur eina þessara leiða færa en gerir alvarlegar athugasemdir við hinar. Ljóst er að nokkur kostnaðarlegur munur er á þessum þremur kostum sem grundvallast annars vegar á mismunandi öryggiskröfum, samanber reglugerð um flugvelli nr. 464/2007, og hins vegar mismunandi flugverndarkröfum, samanber reglugerð um flugvernd nr. 985/2011. Ekki er gert ráð fyrir fé til þessa máls á samgönguáætlun og þar af leiðandi í þjónustusamningi innanríkisráðuneytisins við Isavia, en fé til flugmála er í dag afar takmarkað og hrekkur vart til að halda innanlandsfluginu gangandi eins og við þekkjum af umræðu undangenginna daga.

Ég mun nú gera grein fyrir þeirri leið sem Flugmálastjórn metur færa. Hún gengur út á að Ísafjarðarflugvöllur verði skilgreindur sem hefðbundinn millilandaflugvöllur í flokki I með tilheyrandi öryggis- og flugverndarkröfum.

Árið 2008 lét Isavia fara fram kostnaðargreiningu á því hvaða kostnaður mundi fylgja því að Ísafjarðarflugvöllur yrði skilgreindur sem millilandaflugvöllur í flokki I. Sú kostnaðargreining hefur nú verið uppreiknuð. Heildarstofnkostnaður við þann valkost, þ.e. bæði við flugverndarráðstafanir og annað sem ráðast þyrfti í, væri tæplega 85 millj. kr. Rekstrarkostnaður yrði tæplega 34 millj. kr. Eini fyrirvarinn sem gerður er af hálfu Flugmálastjórnar er að stofnuninni ber vegna krafna um flugvernd skylda til að tilkynna um alla millilandaflugvelli á Íslandi til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, og Evrópusambandsins, ESB. Þessir aðilar halda lista yfir flugvelli og taka þá út samkvæmt eigin úttektarkerfi. Flugmálastjórn þarf að sjálfsögðu að gera úttekt á flugvellinum, bæði miðað við reglugerð um flugvöllinn nr. 464/2007, og miðað við reglugerð um flugvernd nr. 985/2011. Það þarf svo örugglega að bæta honum inn á lista yfir tollhafnir og landamærastöðvar í viðeigandi reglugerðum á sviði fjármálaráðuneytisins.

Vegna landslags í kringum Ísafjarðarflugvöll uppfyllir hann ekki þá staðla sem krafist er til stærðar öryggissvæða umhverfis flugbraut. Ísland hefur skuldbindingar til að innleiða kröfur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, ICAO. Samkvæmt reglugerð um flugvelli nr. 464/2007, sem innleiðir ICAO viðauka 14 sem hér á við, er heimilt að veita undanþágur frá þessum kröfum. Þetta á þó eingöngu við að til komi ráðstafanir sem tryggja fullt öryggi og slíkar ráðstafanir séu tilkynntar Alþjóðaflugmálastofnuninni ef um alþjóðlegan flugvöll er að ræða.

Vegna sömu landfræðilegra aðstæðna geta stærri loftför ekki notað Ísafjarðarflugvöll og er Flugfélag Íslands meðal annar þess vegna með undanþágu frá Eftirlitsstofnun EFTA frá reglugerð Evrópusambandsins nr. 1008/2008, um sameiginlegar reglur um flugrekstur og flugþjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins. Undanþágan tekur til allra loftfara Flugfélags Íslands sem notuð eru í flutningaflugi inn á Ísafjarðarflugvöll og er veitt vegna takmarkaðrar afkastagetu loftfaranna við brottflug og aðflug inn á Ísafjarðarflugvöll vegna þeirra landfræðilegu aðstæðna sem nefndar voru hér að framan. Það eru því einungis minni loftför sem munu geta komið og farið frá Ísafjarðarflugvelli athugasemdalaust.