141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

strandsiglingar.

141. mál
[16:45]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Allar götur frá því ég kom inn á Alþingi fyrst árið 1995 hef ég verið áhugasamur um strandsiglingar. Eins og við vitum gerðist það um miðjan 10. áratuginn, hygg ég það hafi verið, að þær voru lagðar af í skipulegu formi, þá studdar af fjármunum úr ríkissjóði. Menn höfðu margir mörg og þung orð um að það gengi ekki að niðurgreiða siglingarnar en vildu þó gleyma því að landflutningarnir eru niðurgreiddir einfaldlega með því að gera vegi, kostnaðarsamar vegaframkvæmdir, sem auðvelda eða gera mögulega flutninga á landi.

Ég held að fyrir strandsiglingum sé þverpólitískur vilji og hafi alla tíð verið. Ég held að allir stjórnmálaflokkar hafi talað fyrir því að taka upp strandsiglingar. Nú er það loksins að verða að veruleika.

Hv. þingmaður spyr hvað dvelji orminn langa. Þá spyr ég á móti hvort hann hafi einhvern tímann heyrt getið um hið Evrópska efnahagssvæði og ESA og alla biblíumeistarana þar sem rýna í gögnin hvernig eigi að gera þessa hluti, hvernig eigi að standa að útboðum þannig að það sé í samhljómi við heilaga ritningu markaðslögmálanna í Brussel. Það er það sem hefur tafið málið.

En núna hillir undir niðurstöðu. Við erum búin að senda til ESA öll gögn sem málið varðar. Spurt er hvenær við gerum ráð fyrir að strandsiglingar geti hafist. Við eigum eftir að fá þessi gögn aftur í hendur og síðan munu siglingarnar verða boðnar út í snarhasti. Miðað við tímaáætlanir okkar ættu siglingar að geta hafist í mars/apríl árið 2013.

Þá spyr hv. þingmaður hvernig áætlun verði háttað, tímaáætlun, og til hvaða staða verði siglt.

Því er til að svara að siglt verður einu sinni í viku umhverfis landið. Fastir viðkomustaðir verða höfuðborgarsvæðið, Vestfirðir, Norðurland og Austfirðir. Að lágmarki er um að ræða 50 ferðir á ári. Heimilt verður að fjölga viðkomustöðum á síðari stigum en þó innan þess tímaramma sem hverri ferð er ætlaður.