141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

strandsiglingar.

141. mál
[16:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans og hv. þm. Margréti Tryggvadóttur fyrir innlegg hennar.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra hefur verið að skoða þetta mál og að það sé í fullum undirbúningi. Ég fagna því sérstaklega að gert er ráð fyrir að strandsiglingar umhverfis Ísland muni hefjast vorið 2013 og vonast til þess að það muni ganga eftir.

Það er orðið hart í ári þegar hinir evrópsku skrifræðisherrar eru farnir að standa svo í vegi fyrir málum að það tefji þjóðþrifamál eins og þetta um svo langan tíma sem raun ber vitni. En ég fagna því þó að það er að komast lausn í þetta mál og fagna því sérstaklega að siglingar muni að hefjast.

Hvað varðar mál hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur þá hef ég kynnt mér það lítillega, en þrátt fyrir þá hugsun sem er í því máli held ég engu að síður að það sé gríðarlega mikilvægt að á miðlægan hátt sé hlutast til um að koma á strandsiglingum umhverfis Ísland. Það mál held ég að muni ekki breyta mikilvægi þess sem hér um ræðir.

Ég fagna þessari ákvörðun en harma að það skuli hafa dregist í þetta langan tíma og harma það sérstaklega að það skuli vera hið evrópska regluverk sem komi í veg fyrir að þeir sem reka fyrirtæki, þeir sem halda uppi þjónustu í þeim dreifðu byggðum þar sem flutningskostnaðurinn er hvað hæstur, skuli hafa þurft að bíða í þennan tíma. En ég fagna því eins og ég segi að lausn sé að komast í málið.