141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

dómarar.

184. mál
[16:56]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er hreyft mikilvægu máli og settar fram fjórar spurningar.

Í fyrsta lagi: „Hver er heildarfjöldi dómara við íslenska dómstóla, annars vegar við Hæstarétt og hins vegar við héraðsdómstóla?“

Því er til að svara að heildarfjöldi dómara við Hæstarétt Íslands eru 12, þar af er einn skipaður dómari í leyfi til að sitja í EFTA-dómstólnum. Verið er að auglýsa setningu vegna þess til og með 31. desember 2014.

Heildarfjöldi dómara við héraðsdómstólana er 43. Þar af eru tvö embætti laus til skipunar, en enn hefur ekki verið auglýst í þau embætti.

Í öðru lagi er spurt: „Hver er kynjaskipting dómara, annars vegar við Hæstarétt og hins vegar við héraðsdómstóla?“

Í Hæstarétti eru tíu karlar skipaðir dómarar og tvær konur eru skipaðar dómarar. Hlutfall skipaðra dómara er því 83% karlar og 17% konur. Ein staða dómara hefur verið auglýst laus til setningar vegna leyfis, en um er að ræða stöðu Páls Hreinssonar sem nú er dómari við EFTA-dómstólinn fram til 31. desember 2014.

Við héraðsdómstólana eru karlar 63% skipaðra dómara og konur 37%. Sé tekið mið af starfandi dómurum, þ.e. tekið tillit til setninga fram að áramótum, er hlutfallið 56% karlar og 44% konur.

Nú stendur fyrir dyrum að auglýsa tvö embætti héraðsdómara laus til skipunar. Einnig verða þrjú embætti fljótlega auglýst til setningar frá áramótum. Síðan er ég hér með mikið töfluverk þar sem þær tölur allar eru sundurgreindar og horft til einstakra héraðsdómstóla.

Þá er ég kominn að þriðju spurningunni eftir að við erum búin að kortleggja landslagið. „Telur ráðherra hlutfall kvenna í dómarastöðum við Hæstarétt annars vegar og við héraðsdómstóla hins vegar vera viðunandi?“

Nei, ég tel það ekki vera viðunandi. Dómskerfið eins og allar stofnanir í samfélaginu, ekki síst þær sem gegna lykilhlutverki á borð við dómstóla landsins, eiga að endurspegla þjóðfélagið með tilliti til kynjanna. Þannig að svar mitt er að ég telji það ekki vera viðunandi.

Þá er komið að lokaspurningunni um hvað sé til ráða. Hún er svohljóðandi: „Telur ráðherra koma til álita að grípa til sérstakra ráðstafana til að jafna hlut kynjanna í dómarastöðum, t.d. með því að beita ákvæðum 2. og 3. málsliðar 3. mgr. 4. gr. a í lögum um dómstóla, nr. 15/1998, með síðari breytingum?“

Þannig er, svo maður reyni að klifra upp úr reglugerðar- og lagaorðalaginu sem einkennir gjarnan þessa umræðu, að valið er í dómstóla og það er sérstök hæfnisnefnd sem hefur það verkefni með höndum og ráðherra skipar síðan í embættið að hennar tillögu. Ráðherra getur hins vegar breytt út af því en verður þá að skjóta ákvörðun sinni til Alþingis. Hann má ekki breyta ákvörðun hæfnisnefndarinnar nema að hann ákveði að gera það. Fyrir því þarf hann hins vegar að hafa sterk rök sem snúa að hæfni einstaklinganna. Hann getur ekki gert það einvörðungu, að mínu mati, með tilliti til kynjanna. Það verður að vera jafnræði með þeim einstaklingum sem þarna kæmu til álita.

Þessi aðferð sem tæki til að rétta hlut kynjanna tel ég ekki vera rétta. Ég tel hana ekki vera rétta og ekki eiga við sem eitthvert algilt tæki, en ítreka það sem ég sagði áðan að mjög mikilvægt er að jafnræði sé með kynjunum í dómstólum landsins.