141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

dómarar.

184. mál
[17:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir mjög greinargóð svör. Hér reiðir hann fram tölulegar upplýsingar um fjölda dómara og skiptingu þeirra milli kynja. Ég tel að það séu athyglisverðar tölur, sérstaklega að því er varðar Hæstarétt. Þar er ójafnræði miklu meira og það vekur sérstakar áhyggjur vegna þess að við vitum að á næstu árum mun hæstaréttardómurum fækka. Þetta stafar af því að það á að fækka hæstaréttardómurum, þeim var fjölgað tímabundið vegna sérstaks álags, og þá er hætt við því að þar verði hlutur kvenna jafnvel enn lakari á næstunni.

Ég er sammála hæstv. ráðherra um að þessi staða sé óviðunandi, en hef kannski ekki alveg sömu áherslu hvað það varðar hvort hér megi grípa til sérstakra ráðstafana.

Ég nefndi sérstaklega þetta ákvæði laganna sem ég tel að geti verið málefnalegt, að sjálfsögðu ekki þannig að farið sé út fyrir þann ramma sem hæfnisnefnd telur hæfa dómendur. Það er auðvitað skilyrði. Ég tel hins vegar að það geti verið málefnalegar ástæður.

Ég vil líka nefna annað atriði, það hvernig skipað er í dómnefndina sjálfa. Þar virðist ekki vera farið eftir ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Í dómnefndinni er aðeins ein kona af fimm fulltrúum. Þar skipar Hæstiréttur til dæmis tvo fulltrúa og telur sig ekki sjálfan þurfa að uppfylla ákvæði jafnréttislaganna um að gæta að hlutfalli kynjanna þar.

Þetta tel ég að geti komið til skoðunar, einnig hvort konur séu til dæmis í auglýsingum um dómarastöður sérstaklega hvattar til að sækja um. Það er stundum gert í auglýsingum að það kyn sem er færra af í viðkomandi starfsstétt er sérstaklega hvatt til að sækja um. Ég tel menn að minnsta kosti geta skoðað ýmsar leiðir til að (Forseti hringir.) rétta hér úr sem ég er sannfærður um að við erum algerlega sammála um að þarf að gera.