141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

GSM-samband á Hellisheiði og Suðurstrandarvegi.

229. mál
[17:08]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég get engu lofað um að svara því sem ekki er sérstaklega tilgreint í spurningunni vegna þess að ég leitaði fanga um svörin hjá sérfræðingum ráðuneytisins en er ekki sérfróður um þessi efni sjálfur.

Hér er hreyft mjög mikilvægu máli eins og hv. þingmaður nefnir. Við erum ekki bara að tala um þægindi, við erum ekki síður að tala um öryggisatriði þannig að þetta er mikilvægt mál sem við ræðum. Spurt er hvort áformað sé að bæta GSM-samband á Hellisheiði og Suðurstrandarvegi.

Eitt af meginmarkmiðum fjarskiptaáætlunar 2005–2010 var að bæta öryggi vegfarenda með auknu aðgengi að farsímaþjónustu, GSM, á þjóðvegum landsins. Fjarskiptasjóður fékk það verkefni samkvæmt lögum nr. 132/2005 að bjóða út kerfisuppbyggingu og rekstur GSM-þjónustu á þeim vegarköflum stofnvegakerfisins þar sem GSM-þjónusta var ekki tiltæk og fyrir lá að mundi ekki byggjast upp á markaðslegum forsendum samkvæmt upplýsingum frá markaðsaðilum. Markmiðinu var náð í kjölfar tveggja útboða eftir að samið var við Símann hf. í janúar 2007 og við Og fjarskipti ehf., Vodafone, í desember 2007.

Í aðdraganda útboða árin 2006 og 2007 var gerð kostnaðaráætlun á grundvelli stöðugreiningar og forhönnunar. Ljóst var að fjármunir fjarskiptasjóðs til verkefnisins samkvæmt fjárheimildum mundu hrökkva skammt til þess að ná markmiði um 100% GSM-útbreiðslu á öllum vegarköflum þjóðvegakerfisins. Lögð var áhersla á stofnvegi og fjölfarna ferðamannastaði. Eftir uppsetningu fjarskiptasenda náðist að lágmarki um 75% aukning á þjónustu á þeim þjónustusvæðum sem verkefnið náði til og var GSM-samband bætt á alls 68 skilgreindum stofnvegaköflum um allt land.

Rétt er að hafa í huga að vegfarendur með farsímaáskrift hjá einu fjarskiptafyrirtæki geta verið utan þjónustusvæðis þar sem eingöngu farsímakerfi frá öðru fjarskiptafyrirtæki er til staðar og svo öfugt. Þetta kann að hafa mismunandi áhrif á upplifun notenda á tilteknum svæðum þar sem farsímafyrirtækin hafa ekki samið um reiki sín á milli.

Rétt er að taka fram að ef farsími missir samband getur tekið smátíma fyrir handtækið að leita að neti og komast aftur í samband. Fjarskiptafyrirtækin hafa verið hvött til þess að ná samningum um reiki á markaðslegum grunni notendum til hagsbóta. Öryggi farsímanotenda er því tryggt þótt reiki sé ekki til staðar þar sem hægt er að hringja í 112 úr öllum GSM-símum óháð farsímakerfi.

Samningar fjarskiptasjóðs skylda viðsemjendur hans til að veita öðrum GSM-rekstraraðilum reikiþjónustu á styrktum fjarskiptasendum. Mælingar í aðdraganda verkefnisins sýndu ekki fram á umtalsvert þjónustuleysi á stofnveginum um Hellisheiði. Stofnvegurinn féll því utan við verkefni fjarskiptasjóðs. Styrkur GSM-merkis, þar með talið í þéttbýli, er þó misjafn á köflum sökum landslags eða fjarlægða frá sendi sem getur orsakað slit á símtölum, en það á almennt við um farsímaþjónustu hér á landi samkvæmt upplýsingum frá fjarskiptafyrirtækjunum. Samkvæmt nýrri mælingu Póst- og fjarskiptastofnunar kemur fram að á örfáum stöðum á veginum um Hellisheiði er hætt við slitum á samtölum.

Suðurstrandarvegur er einnig stofnvegur og féll undir seinna GSM-útboð fjarskiptasjóðs. Um var að ræða tvö afmörkuð þjónustusvæði, annað liggur frá Grindavík langleiðina að Krýsuvík og hitt frá Krýsuvík og austur fyrir Selvog. Mæling sem framkvæmd var í júní 2008 að lokinni uppbyggingu leiddi í ljós að GSM-þjónusta á fyrrnefnda vegarkaflanum jókst um 80%, og 100% á þeim síðarnefnda. Þessi aukning var í samræmi við útbreiðslumarkmið í útboðsgögnum fjarskiptasjóðs.

Frá árinu 2008 hafa þær breytingar orðið að vegarstæði Suðurstrandarvegar hefur færst að hluta. Samkvæmt nýrri mælingu Póst- og fjarskiptastofnunar kemur fram að á fáeinum stöðum á veginum er hætt við slitum á samtölum eða sambandsleysi. Þjónustuhlutfallið er þó umtalsvert hærra en upphafleg útbreiðslumarkmið fjarskiptasjóðs gerðu ráð fyrir. Engin áform á vegum fjarskiptasjóðs eru um að bæta GSM-samband á Hellisheiði og Suðurstrandarvegi umfram það sem fjarskiptasjóður hefur þegar stuðlað að í samræmi við lög nr. 132/2005 og greint er frá í svarinu.

Samkvæmt upplýsingum Póst- og fjarskiptastofnunar áforma farsímafyrirtækin ekki frekari uppbyggingu GSM-þjónustu á þessum tilteknu stofnvegum á markaðslegum forsendum.