141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

áfengisauglýsingar.

320. mál
[17:38]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að vekja enn og aftur athygli á þessu máli. Það kom til umræðu fyrr í dag og mun gera það áfram. Það er mikilvægt fyrir þingið að afgreiða frumvarp sem liggur fyrir þinginu og þó fyrr hefði verið. Það er endurflutt og því hefur lítillega verið breytt. Ég legg ríka áherslu á að við sameinumst nú um að afgreiða frumvarpið.

Það er verið að setja þær auglýsingar sem við horfum á í þessu sambandi í ákveðinn búning, búning sem orkar tvímælis. Við upplifum þetta og þetta særir réttlætiskennd margra. Ég tel að lýðheilsusjónarmið eigi að vega þyngra en hagnaðarsjónarmið þeirra sem fara fram með þessar auglýsingar. Ég tel að íslenski bjórinn eins og hann er í dag tali fyrir sig sjálfur og ekki þurfi að fara þessa leið til að auglýsa hann. Framleiðendum er hægur vandi á höndum að fara að búa sig undir að hafa framleiðsluna eins og frumvarpið segir til um.