141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

áfengisauglýsingar.

320. mál
[17:39]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Aðeins út af James Bond. Ég verð nú að viðurkenna að ég er ekki að horfa á hvaða áfengi hann drekkur hverju sinni, það er eitthvað allt annað sem ég er að hugsa um þá. [Hlátur í þingsal.] Í fyrsta lagi vil ég tengja nokkur atriði við þessa umræðu og ef menn ætla að fara að ræða frumvarp hæstv. innanríkisráðherra þá þarf að mínu mati að gjörbreyta því í nefnd.

Í fyrsta lagi er alveg ljóst að niðurstaða faghóps hæstv. fjármálaráðherra frá árinu 2010, fjármálaráðherra hét þá Steingrímur J. Sigfússon, var alveg skýr: Það á að leyfa áfengisauglýsingar en með takmörkunum. Ég held að það sé miklu betra að menn fari að horfast í augu við veruleikann, sem mér finnst ekki koma fram í frumvarpi hæstv. innanríkisráðherra, en hann heitir nútíminn. Internetið, Facebook — við skulum frekar reyna að tækla þessar áfengisauglýsingar, beinar sem óbeinar, með öðrum hætti en gert er í umræddu frumvarpi.

Ég vil benda á að forvarnir hafa skilað miklu í grunnskólunum en ekki síður í framhaldsskólum. Við sjáum markvissan árangur því að börnin okkar eru sem betur fer að minnka unglingadrykkjuna. Ég er sannfærð um að við eigum að fara aðrar leiðir. Við viljum stemma stigu við því að fólk neyti áfengis en frumvarpið sem við erum að tala um í allsherjar- og menntamálanefnd er algjörlega veruleikafirrt.