141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

áfengisauglýsingar.

320. mál
[17:43]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil fyrst og fremst þakka fyrir þessa umræðu sem kannski varð allvíðtæk. Ég get tekið undir það með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að þær rannsóknir sem við höfum til að mynda á áfengisneyslu í Evrópu sýna fram á að takmarkað aðgengi hefur áhrif á neyslu á þann veg að hún minnkar. Það er ástæðan fyrir því að ég hef verið fylgjandi einkasölu ríkisins á áfengi og tóbaki og hef ekki viljað sjá það fara í almennar búðir. Ég hef ekki talið það vera eins og hvert annað majónes, ég veit að ýmsir aðrir hv. þingmenn eru mér ósammála um það.

Mér finnst þetta mikilvægt mál og kannski best, eins og hv. þingmaður nefnir, að við fáum tækifæri til að ræða áfengislögin og frumvarpið til þeirra hér í salnum. Mikilvægast er að fá sjónarmið þingheims fram í því máli, ég tek undir með hv. þingmanni um það.