141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

tjón af fjölgun refa.

140. mál
[17:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Frú forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra er varðar tjón af fjölgun refa. Ég held að það sé rétt í upphafi að rekja aðeins forsögu þess en eins og kunnugt er var fjárstuðningi við refaveiðar hætt fyrir tveimur árum. Hæstv. umhverfisráðherra lagði fram sín fyrstu fjárlög þegar hún tók við umhverfisráðuneytinu á sínum tíma og gerði ráð fyrir að hætta fjárstuðningi við refaveiðar. Þetta kom mörgum spánskt fyrir sjónir, einkum og sér í lagi vegna þess að virðisaukaskattur sem verið var að greiða af refaveiðum vegna mótframlags frá sveitarfélögunum var hærri en heildarfjárframlag ríkissjóðs.

Fjárlaganefnd á þeim tíma, fyrir þremur árum, ákvað þó að bæta fjárveitingunni inn á nýjan leik á milli 1. og 2. umr. og gerði ráð fyrir því með sinni fjárveitingu að þessi málaflokkur yrði endurskoðaður og komið fram með tillögur fyrir fjárlaganefnd árið eftir. Fjárlaganefnd beindi þeim tilmælum til hæstv. umhverfisráðherra en allt kom fyrir ekki. Fjárlög næsta árs komu og enn á ný var búið að taka út fjárstuðning við refaveiðar. Við því var varað en þá var ekki vilji til þess í nefndinni að setja fjárveitinguna aftur inn á milli 1. og 2. umr.

Ref hefur fjölgað gríðarlega allt í kringum landið. Við höfum fengið nýlegar fréttir af því að refur sé farinn að ganga í fé sem hefur verið fast í fönn. Við fáum fleiri fréttir ár hvert af dýrbitnu fé, við heyrum af fleiri svæðum þar sem fuglalíf er orðið mjög lítið og allar rannsóknir benda til þess að ref hafi fjölgað gríðarlega.

Við gerð fjárlaganna núna hefur verið skorað mjög á fjárlaganefnd að taka ákvörðunina til baka og hefja á ný fjárstuðning við refaveiðar og endurskipuleggja þær á landsvísu. Mig langar að spyrja hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra nokkurra spurninga sem snúa að fjölgun refa þar sem þetta mál heyrir undir hæstv. ráðherra:

1. Hefur ríkisstjórnin í hyggju að koma til móts við bændur vegna þess tjóns sem hlýst af fjölgun refa?

2. Telur ráðherra að það hafi verið skynsamlegt að hætta fjárstuðningi við refaveiðar?

Það verður að skoðast í því ljósi, eins og ég kom inn á í máli mínu, að fjárstuðningur ríkissjóðs á þeim tíma var lægri en virðisaukaskatturinn sem ríkissjóður fékk vegna refaveiðanna.

3. Hver er stefna ríkisstjórnarinnar þegar kemur að refaveiðum?

Er stefnan sú að ríkið komi ekki að þessu með einhverjum hætti eða sér hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir sér að ríkissjóður geri það eins og kallað hefur verið eftir af sveitarfélögum allt í kringum landið?