141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

tjón af fjölgun refa.

140. mál
[17:57]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu hér og fræðandi tölulegar upplýsingar frá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni. Vara þó hér eftir sem hingað til við umræðunni um sérfræðingagrýlurnar að sunnan vegna þess að það er gott að stefna saman sérfræðiþekkingu og þekkingu heimamanna í öllum málum.

Varðandi orð hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar og Ásmundar Einars Daðasonar liggur það væntanlega ljóst fyrir hv. þingmönnum að úrvinnsla fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2013 er í höndum þingsins. Mælt hefur verið fyrir frumvarpinu hér í þingsal og það er þannig að fjárveitingavaldið er hjá Alþingi en tillagan er komin frá hæstv. fjármálaráðherra og er til afgreiðslu í þinginu. Þannig að afstaða mín er í því máli jafngild afstöðu hvaða þingmanns sem er hér í salnum og varðar ekki mína stöðu sem þátttakanda eða sem hluta af framkvæmdarvaldinu.

Hv. þingmaður, fyrirspyrjandi og málshefjandi ræddi um ábyrga fjármálastjórn með miklum boðaföllum hér í fjárlagagerðinni 2009. Ég ætla enn að leyfa mér að horfa í baksýnisspegil hins unga þingmanns og rifja það upp fyrir honum að hann tók þátt í afgreiðslu þeirra fjárlaga sem þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.