141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

rekstur og stjórnsýsla Vatnajökulsþjóðgarðs.

246. mál
[18:07]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir góða umræðu. Ég held að það sé afar mikilvægt að halda því til haga að mikið af starfsemi stofnana umhverfisráðuneytisins á sér stað úti á landi. Ég held að fólk átti sig kannski ekki á því hvernig þeim er fyrir komið Það er meira að segja þannig með Umhverfisstofnun að þegar hún auglýsir eftir starfsmönnum eru það starfsmenn án staðsetningar, þ.e. þeir eru bara staðsettir á starfsstöðvum Umhverfisstofnunar sem eru á nokkrum stöðum úti um land. Starfsstöðvar Veðurstofu Íslands eru úti um allt land, starfsstöðvar Náttúrufræðistofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs, Skógræktar ríkisins, Landgræðslunnar, Landmælinga o.s.frv. Dreifing starfsstöðva umhverfisráðuneytisins og stofnana þess er því mjög jöfn úti um land, svo því sé haldið til haga.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson spurði um samlegð þjóðgarðanna. Þetta hefur verið skoðað í umhverfisráðuneytinu og er til ágætisskýrsla sem liggur frammi á vef ráðuneytisins þar sem samlegðarmöguleikarnir eru skoðaðir. Þar er sú hugmynd höfð að leiðarljósi að setja á stofn einhvers konar þjóðgarðastofnun þar sem bæði þeir þjóðgarðar sem eru til, Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull, Vatnajökulsþjóðgarður og Þingvallaþjóðgarður, og friðlýst svæði sem eru yfir 100 í landinu, ættu heima undir einum sameiginlegum hatti. Ég mundi gjarnan vilja sjá að þingið tæki þessa umræðu dýpra og til nánari skoðunar og ekki síst með hliðsjón af því að fjármagni væri betur varið. Umræðan þarf að eiga sér stað í samráði við þingið og mjög ítarlega, ekki síst vegna þess að Þingvallaþjóðgarður er náttúrlega undir umsjá Alþingis og Þingvallanefndar en reksturinn er að svo ótrúlega mörgu leyti algjörlega sambærilegur hinum. Þetta er ekki fyrirkomulag sem við ættum í raun og veru að sjá til langrar framtíðar, að hafa þetta á svo mörgum höndum. (Forseti hringir.) Mér finnst þetta því mikilvæg umræða, úttektin er til og ég vænti þess að þingið geti tekið góða umræðu um þau mál.