141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Í dag fara fram forsetakosningar í Bandaríkjunum og við fylgjumst auðvitað öll með vegna þess að niðurstaða þeirra mun hafa áhrif um heim allan. Öllu hugsandi fólki er það verulegt áhyggjuefni hversu langt til hægri Repúblikanaflokkurinn hefur færst, bæði vegna afstöðu hans til ýmissa minnihlutahópa og sjálfsagðra réttinda sem er okkur Íslendingum framandi, en ekki síður vegna þeirrar öfgakenndu hægri stefnu um lægri skatta á auðmenn og niðurskurð í velferðarkerfinu sem þar koma svo skýrt fram í samfélagi sem þarf augljóslega á allt öðru að halda.

Það verður þess vegna sífellt meira undrunarefni hversu ríka áherslu forusta Sjálfstæðisflokksins á Íslandi leggur á samstarf við þennan systurflokk sinn og það að sækja samkomur hans og sýna honum virðingu í hvívetna. Það vekur líka athygli á þeirri umræðu sem skotið hefur upp kollinum í þeim flokki hvort hér á Íslandi sé að skjóta rótum einhvers konar teboðshreyfing sem sé að flytja Sjálfstæðisflokkinn lengst út á hægri kant íslenskra stjórnmála. (Gripið fram í.) Ekki auðvitað í þessum ömurlegu siðferðisviðhorfum sem við þekkjum af Repúblikanaflokknum, sem betur fer erum við laus við það á Íslandi.

Þó verður sterkari áróðurinn í Sjálfstæðisflokknum fyrir því að verkefnin hér séu að skera frekar niður í velferðarkerfinu eins og forustumenn flokksins í efnahags- og ríkisfjármálum sögðu á sumrinu og að lækka skatta á auðmenn og hátekjufólk.

Nú í vetur verður kosið um það hvaða verkefni verða í forgangi næstu fjögur árin. Hægri öfgaáherslur Sjálfstæðisflokksins, um lægri skatta fyrir auðmenn og hátekjufólk og um frekari niðurskurð í velferðarkerfinu, eru sannarlega engar áherslur sem Ísland þarf á að halda í þeim alvarlegu verkefnum sem við okkur blasa. (GÞÞ: Er prófkjör …?) (ÞKG: Þú situr hinum megin.)