141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Nýjustu fréttir af útgerðarmönnum eru tvenns konar. Annars vegar eru fréttir um stórkostlegan hagnað sem við fögnum öll og tökum þátt í að fagna með útgerðarmönnunum. Hins vegar eru þær fréttir að í kjaradeilu við sjómenn ætli þeir að sigla flotanum í land af því að þeir eiga svo bágt út af veiðigjaldinu sem sjómenn eiga að hjálpa þeim að borga.

Ég er ekki hrifinn af því að ríkið hafi afskipti af kjaradeilum, en ég les með athygli pistil félaga míns, hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, sem leggur það til að menn íhugi lög á útgerðarmenn strax og þeir láta verða af þessari hótun.

Það leiðir svo hugann að því, forseti, að við eigum brekku eftir á þinginu í sjávarútvegsmálunum, í fiskveiðistjórnarmálunum, þá brekku að efna kosningaloforð stjórnarflokkanna um nýja skipan í sjávarútvegsmálum. Staðan í því máli er núna gjörbreytt eftir að 84% kjósenda greiddu atkvæði með þjóðareign á auðlindunum þannig að allir eigi möguleika á nýtingu enda komi fullt gjald fyrir.

Nú er beðið frumvarps frá sjávarútvegsráðherra og ég segi fyrir mína parta að það frumvarp verður að standast þær kröfur sem svörin úr þjóðaratkvæðagreiðslunni gera til þess. Ég minni hæstv. sjávarútvegsráðherra um leið á þær breytingartillögur sem við hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir bárum fram við síðasta frumvarp í þessu efni, og við félaga og vini í stjórnarmeirihlutanum, kannski sérstaklega í Samfylkingunni, mínum flokki, segi ég: Við getum ekki verið þær druslur og lufsur að við göngum frá hálfköruðu verki í fiskinum eftir að þjóðin hefur sagt sitt. Þá er betra að bíða og vinna heilt verk eftir næstu kosningar.