141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Eitt stærsta hagsmunamál almennings er að það ríki heilbrigð samkeppni í atvinnulífinu, að fyrirtæki keppi á grundvelli sanngjarnra leikreglna. Það er forsenda þess að verðlag sé viðunandi og neytendasjónarmið virt í verki. Þar er mikið verk að vinna eins og við þekkjum og skortur á samkeppni birtist okkur vítt og breitt í atvinnulífinu, í sjávarútveginum þar sem mikið vantar upp á að eðlileg samkeppni án aðgangshindrana gildi við veiðar og vinnslu, í landbúnaði þar sem verndartollar verja innlenda framleiðslu, takmarka framboð til neytenda og viðhalda óeðlilega háu vöruverði sem lengi má telja, á matvörumarkaði, í flutningum, í fjarskiptum og á fjármálamarkaði.

Ég kem hingað upp út af því að á sama tíma er Samkeppniseftirlitið, sem á að standa vörð um samkeppni í atvinnulífinu, í þeirri stöðu að geta engan veginn sinnt öllum þeim aragrúa mála sem tengjast meintum samkeppnisbrotum og hefur borist eftirlitinu eftir hrun.

Það kom fram á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í gær að erindum til Samkeppniseftirlitsins hefur fjölgað um 70% frá hruni á sama tíma og fjárveitingar hafa lækkað um fjórðung. Það hægir sífellt á málshraðanum og nú eru 40% mála hjá eftirlitinu tveggja ára gömul eða eldri, tvöfalt fleiri en fyrir tveimur árum. Sem dæmi má nefna að Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda hafa lagt inn erindi sem lýtur að grundvallarmarkaðsbresti í kvótakerfinu og það hefur legið óafgreitt í tæp tvö ár. Samtökin hafa nú kært þessa málsmeðferð til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.

Ég tel þetta óviðunandi stöðu fyrir neytendur í landinu. Löggjafarvaldið verður að skoða leiðir til að efla Samkeppniseftirlitið verulega svo það geti sinnt hlutverki sínu í þágu neytenda í landinu. Það er umhugsunarefni að frá aldamótum hafa úrskurðir Samkeppniseftirlitsins leitt til þess að 7 milljarðar kr. á föstu verðlagi hafa runnið í ríkissjóð í formi sektargreiðslna vegna samkeppnisbrota og er þá ótalinn (Forseti hringir.) allur ávinningur fyrir neytendur af aðgerðum eftirlitsins á þessu tímabili sem leitt hafa til virkari samkeppni í landinu.