141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í heljarbylnum sem gekk yfir Ísland um síðustu helgi sló víða út rafmagninu. Ein af afleiðingum þess var sú að varaafl sendanna austan Markarfljóts tæmdist en það dugir í 4–9 klukkustundir. Þetta er auðvitað alvarlegt mál og aðvörun um að hugsanlega geti það hamlað rýmingu bæði fólks og fénaðar ef hamfarir á borð við Kötluhlaup ganga yfir.

Til að fá fram alla þætti málsins og viðbrögð við því kölluðum við í allsherjar- og menntamálanefnd fulltrúa frá Símanum og Almannavörnum fyrir fundinn í morgun og skýrði sá fundur prýðilega stöðuna. Er ljóst að varaafl tiltekinna senda verður eflt verulega og bætt úr öðrum agnúum þar sem við á. En þrátt fyrir að farsímakerfi í símafyrirtækjunum séu ekki skilgreind sem neyðarfjarskiptakerfi gegna þau í raun og veru því hlutverki þegar kemur að rýmingu tiltekinna svæða. Út af mikilli útbreiðslu á farsímum er langskjótvirkasta leiðin til að ná til þorra fólks í gegnum síma.

Fyrir rúmu ári veitti Alþingi fjármagn til að byggja upp öflugt boðunarkerfi í gegnum farsímana út af rýmingu og almannavörnum og þess vegna nýtist farsímakerfið jafn vel og raun ber vitni. Rafmagnsleysi sendanna á varaafli var aðvörun til okkar um að berja í brestina og bæta fyrirkomulagið sem er hvorki flókið tæknilega né dýrt að gera. Það er talið að kostnaður við að tvöfalda varaafl á hverjum sendi sé á bilinu 0,5–1 millj. kr. Um er að ræða nokkra tugi senda séu þeir skilgreindir sem gegna brýnasta hlutverkinu. Sendistaðir símafyrirtækjanna eru um 500 og sendarnir um 700. Hluta þeirra þarf að skilgreina sem mikilvæga í þessu tilliti, svo sem svæðið austan Markarfljóts allt að Hornafirði. Varaafl þessara senda þarf að tvöfalda eða þrefalda þannig að þeir geti gengið í heilan sólarhring ef svo ber undir.

Niðurstaða fundarins í morgun var meðal annars sú að stilla saman strengi símafyrirtækjanna þriggja þannig að þau fari öll að tillögum Almannavarna og að tryggt verði að nægjanlegt varaafl verði á farsímasendum til að gegna (Forseti hringir.) hlutverki rýmingaráætlunar ef svo ber undir og þegar á þarf að halda. Allir vita að fumlaus og yfirveguð viðbrögð og skjót rýming á neyðarstundu mun og getur bjargað mannslífum þegar mikið liggur við.