141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Hingað þrammar hver prófkjörskandídatinn hjá Samfylkingunni á fætur öðrum og tekur upp kyndilinn sem hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, kveikti og útmálar Sjálfstæðisflokkinn sem aðalandstæðing Samfylkingarinnar. Mér finnst þetta rosalega hallærisleg og leiðinleg pólitík. Við eigum að tala meira saman. Ef menn halda að við sjálfstæðismenn þorum ekki að tala um öflugt atvinnulíf — að við förum að framkvæma og taka ákvarðanir í staðinn fyrir að standa frammi fyrir sviknum loforðum eins og ríkisstjórnin gagnvart aðilum vinnumarkaðarins — þá er það mikill misskilningur. Við ætlum ekki að hvika frá þeirri stefnu að stuðla að öflugu atvinnulífi.

Hvað það varðar að standa vörð um öflugt velferðarkerfi eða menntakerfi — að sjálfsögðu verður það áfram okkar stefna. Það er mikill misskilningur að við ætlum að breyta þeirri stefnu. Það er líka mikill misskilningur að við sjálfstæðismenn ætlum að hvika frá þeirri stefnu að tala um lága skatta á fólk og fyrirtæki. Það er mikill misskilningur ef menn halda að við hvikum frá þeirri stefnu okkar. Við erum sannfærð um að það sé mesta hagsbótin fyrir fólkið, fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.

Talandi um beina og óbeina skatta — hvernig endalaust er verið að smygla þessu inn í hvert fjárlagafrumvarpið á fætur öðru eða inn í eitthvert stjórnarfrumvarpið — vil ég meðal annars benda á þær aðgerðir sem við stöndum frammi fyrir af hálfu stjórnvalda í dag. Útlit er fyrir eftirfarandi: Að núverandi vörugjöld verði hækkuð um 20% sem tengist matvælum, að vörugjald á gos, vatn, safa o.s.frv. verði jafnvel tvöfaldað. Þessu stendur vinstri stjórnin fyrir. Morgunmatur — sykraður, ægilega vont, fær á sig nýtt vörugjald. Mjólkurafurðir sleppa. Það má ekki hreyfa við landbúnaðinum. Það má ekki einu sinni tala um það hér að auka innflutning á landbúnaðarvörum af því það gæti þýtt allt of mikið frelsi. Já, ég vil aukið frelsi á ýmsum sviðum.

Þetta eru gjöld sem vinstri stjórnin beitir sér fyrir að koma í gegn á Alþingi. Þetta er umrædd skjaldborg, hin margumtalaða skjaldborg sem mun hækka verðtryggð lán heimilanna enn frekar. (Forseti hringir.) Vörugjaldið sem menn ætla nú að standa fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar er að mínu mati tvöfaldur skattur á heimilin. Og enn og aftur: Þetta er allt í boði vinstri stjórnarinnar.