141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég geri mér grein fyrir að það er að styttast í prófkjör hjá mörgum hv. þingmönnum, og sérstaklega samfylkingarþingmönnum, en mér fannst hv. þm. Helgi Hjörvar flytja ræðu sína af mikilli innlifun og af miklum eldmóði. Ég held meira að segja að hann hafi trúað allri þeirri vitleysu sem hann sagði hér í ræðustól.

Hann hélt því fram að Sjálfstæðisflokkurinn vildi skera niður til heilbrigðismála. Þá er kannski ágætt að rifja upp, ef skammtímaminni hv. þingmanns er þannig að hann trúir þessu sjálfur, að við fjárlög fyrir árið 2012 lagði þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fram breytingartillögur um að hlífa öllum niðurskurði í velferðarmálum, í öllum heilbrigðismálunum. Á móti voru lagðar fram aðrar tillögur um niðurskurð á öðrum liðum. Þetta var nú fellt af hv. þm. Helga Hjörvar.

Það er líka ágætt að rifja það upp að við fjárlagagerð árið 2011 lögðu stjórnarflokkarnir fram fjárlög sem hefðu, hefðu þau verið samþykkt, meira og minna rústað allri heilbrigðisstarfsemi úti á landsbyggðinni. Þannig eru vinnubrögð hv. stjórnarliða. Það er ágætt að rifja þetta upp fyrir hv. þingmönnum. Meira að segja var svo langt gengið og það var svo vanhugsað og vitlaust — enda voru menn reknir til baka með það — að þær tillögur sem voru settar fram voru ekki framkvæmanlegar. Sérstök skýrsla kom um það úr velferðarráðuneytinu að þær tillögur væru ekki einu sinni framkvæmanlegar. Það er nú öll hættan að losna við stjórnarflokkana úr Stjórnarráðinu, að það muni þá gerast með þessu móti.

Að gefnu tilefni vil ég líka minna á, af því að hv. þingmenn stjórnarinnar tala um að gera eitt en framkvæma svo annað, að þetta femínistatal og það allt saman, kynjaða hagstjórnin og kynjaða fjárlagagerðin, er ekkert annað en hjómið eitt — og (Gripið fram í.) síðasta aðgerðin sem farið var í fyrir fjárlög árið 2012, sem við vöruðum þá við, var að reka 28 konur út af E-deildinni á sjúkrahúsinu á Akranesi. Það eru nú stórvirkin sem þessir hv. þingmenn hafa unnið hér á síðustu missirum.