141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

afleiðingar óveðursins á Norður- og Norðausturlandi í september.

[14:18]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér er hafin og vil reyna að setja þetta mál í örlítið annað samhengi. Ég var á ráðstefnu á Hótel Sögu áðan sem bar yfirskriftina Matvælalandið Ísland, fjársjóður framtíðar og ég held að það sé rétt að við ræðum það áfall sem varð í september, sem er hvorki fyrsta áfallið sem íslensk þjóð verður fyrir né það síðasta, og setjum það í samhengi við þessa yfirskrift. Ég er ekki viss um að margir hér geri sér grein fyrir því að það eru 250 þús. fleiri munnar að metta í kvöldmat í kvöld en var í gær. Á hverjum degi bætast við 250 þús. manns í veröldinni og þannig fjölgar út alla þessa öld. Þetta þýðir einfaldlega að það er aukin eftirspurn eftir matvælum. Matvælaframleiðsla þarf að tvöfaldast fram á miðja öldina og í þessu liggja tækifæri okkar á Íslandi sem við getum nýtt. Jafnframt felast í þessu ákveðnar ógnir eins og við höfum upplifað, þ.e. óblíð náttúra og hugsanlegar hamfarir, eins og þegar við horfum upp á það að 10 þús. sauðkindur tapast í einu norðanáhlaupi.

Það er eðlilegt að þetta sé rætt og kallað eftir greinargerð um allt sem lýtur að því áfalli sem þarna varð, hvernig við getum unnið úr því og dregið lærdóm af viðbrögðum okkar.

Það er eitt mál líka sem hvorki kom fram í máli framsögumanns né hæstv. ráðherra sem lýtur að einni ógninni enn sem af þessu getur leitt, þ.e. dýrbítinn. Það er ljóst að engin náttúruleg afföll verða af tófu í vetur, hún mun hafa nóg að bíta og brenna á þessum svæðum. Í þeirri stöðu hljótum við að kalla eftir því að stjórnvöld grípi til einhverra ráðstafana gegn þeirri ógn sem fjárstofni landsins stafar af tófunni (Forseti hringir.) og aðgerðaleysinu varðandi eyðingu á henni.