141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

afleiðingar óveðursins á Norður- og Norðausturlandi í september.

[14:21]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Við höfum átt hana áður en það er mjög gott að fara yfir málið aftur og kalla eftir því að allar upplýsingar um hvernig til tókst séu settar saman í skýrslu og við förum yfir það sem ekki fór eins vel og það hefði átt að gera og lærum af því. Við vitum að þetta er ekki síðasta skiptið sem við munum þurfa að lýsa yfir neyðarstigi almannavarnakerfisins. Því er um að gera að reyna að læra af reynslunni.

Það sem mig langar að segja í þessu sambandi er að þeir heimamenn sem ég talaði við sögðu að þegar þessu almannavarnastigi var lýst yfir hefði hlutirnir farið virkilega að gerast. Þá var eins og sýslumaðurinn yrði sá samræmingaraðili sem allir hefðu svo gjarnan viljað hafa fyrr og það hefði gert gæfumuninn.

Í síðustu umræðu benti ég á að það þyrfti að skoða líðan fólksins sem lenti í þessum hremmingum sérstaklega með einhvers konar áfallahjálp í huga. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það hafi eitthvað verið skoðað.

Mig langar í framhaldi af þessari umræðu að minna á að nú er staðan þannig fyrir norðan að það er í raun gert ráð fyrir því að þar geti komið stór jarðskjálfti. Heimamenn á Eyjafjarðarsvæðinu og alveg yfir í Þingeyjarsýslur hafa talað um að þeir hefðu mjög gjarnan viljað að einhvers konar samræmingaráætlun yrði gerð vegna þessara skjálfta. Til dæmis eru gerðar kröfur um að skólastofnanir geri sérstakar viðbragðsáætlanir en það er mjög flókið þegar fólk veit í raun ekki hvert það á að leita. Sums staðar er staðan þannig að fólk veit ekki einu sinni hverjir eru í almannavarnanefnd og hver er samræmingaraðili. Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því að það getur orðið ófært vegna snjóa, þessi stóri skjálfti (Forseti hringir.) getur riðið yfir og hvað ætlum við þá að gera? Lærum endilega af reynslunni af óveðrinu í september.