141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

afleiðingar óveðursins á Norður- og Norðausturlandi í september.

[14:27]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að þessi umræða skuli núna fara fram. Við ræddum þetta einmitt á þeim dögum sem óveðrið gekk yfir og þá höfðum við ekki þær upplýsingar eða þá yfirsýn sem við þurfum að hafa til að geta metið stöðuna. Núna getum við sagt að flest kurl séu komin til grafar og þá getum við farið að átta okkur á umfangi vandans og hvernig við eigum nákvæmlega að bregðast við.

Það er mjög mikilvægt eins og hér hefur verið sagt að við reynum að læra af reynslunni. Fram hefur komið að það eru bæði veikleikar og styrkleikar í því sem þetta snertir, bæði á það við um raforkukerfið, fjarskiptakerfið, veðuraðvaranir, almannavarnakerfið o.s.frv. Við þurfum einfaldlega að fara yfir málin á jákvæðan hátt í þeim tilgangi að reyna að læra af þessu þannig að okkur takist enn betur til næst. Það var mjög margt sem tókst vel í þessum miklu hamförum og á því munum við líka geta lært.

Í þessu sambandi vil ég nefna eitt. Stundum hefur verið rætt að það kunni að skipta máli hvort lýst hafi verið yfir almannavarna- eða viðvörunarástandi eða neyðarástandi á tilteknum svæðum. Það á að mínu mati ekki að skipta máli þegar við veltum því núna fyrir okkur hvernig við eigum að bregðast við gagnvart því fólki sem varð fyrir mjög miklu tjóni. Bætur eiga ekki að ráðast á einhvern hátt af því hvort slíku ástandi hafi verið lýst yfir. Ég undirstrika þetta vegna þess að stundum hefur mér fundist örla á því í umræðunni að þar kunni að vera einhver skil á milli. Það er eitt af því sem við sjáum af þessu, vandinn varð miklu víðtækari en við hugðum í upphafi. Í upphafi héldu menn að þetta væri að mestu einskorðað við norðaustursvæðið en annað hefur komið á daginn. Til dæmis er talið að í Skagafirði hafi drepist 1.500–1.700 fjár og enn vantar 3.500 fjár af fjalli. Í Húnavatnssýslu var talið að vantaði um 1.500–2.000 fjár en núna er talan sennilega nær 3.000. Vandinn er víðtækari og meiri en við hugðum í upphafi sem og tjónið (Forseti hringir.) og við þurfum þess vegna að átta okkur á því og koma myndarlega til móts við það fólk sem þarna hefur orðið fyrir miklum búsifjum.