141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

afleiðingar óveðursins á Norður- og Norðausturlandi í september.

[14:29]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er rétt, við erum sífellt að draga lærdóm af þeim náttúruhamförum sem ganga yfir landið og þetta áfall hafði mikinn skaða og búsifjar í för með sér fyrir fjölda bænda. Við búum sem betur fer við öflugar almannavarnaáætlanir sem skipta sköpum, bæði um viðbúnað og upplegg í aðdraganda hamfara sem eru með einhverjum hætti séðar fyrir og ekki síst viðbrögðin við þeim.

Við búum við sífellda náttúruvá á Íslandi. Veðravíti, heljarbylir, jarðskjálftar, eldgos og hlaup vatnsmikilla jökuláa eru ávallt og verða alltaf hluti af íslenskum veruleika. Í öllum aðalatriðum held ég að óhætt sé að fullyrða að fyrirkomulag almannavarna og viðbragða sé gott, en auðvitað kemur fyrir að eitthvað fer úrskeiðis sem er ekki séð fyrir. Þá er það okkar á Alþingi og annars staðar, eins og hv. fyrirspyrjandi, hv. þm. Jón Bjarnason, og hæstv. innanríkisráðherra töluðu um áðan, að safna þarf saman upplýsingum með skjótum hætti og draga af þeim lærdóm.

Fumlaus viðbrögð og skjót rýming í sumum tilfellum geta bjargað mannslífum þegar á reynir. Þess vegna er mjög mikilvægt að draga lærdóm af því sem við teljum að geti farið betur á einhvern hátt. Við höfum verið að ræða í dag um óveðrið, illviðrið sem gekk yfir Ísland um síðustu helgi, sem hafði meðal annars í för með sér að rafmagn sló út víða um land og varaafl tæmdist af fjarskiptasendum sem gegna í raun hlutverki neyðarfjarskipta þegar þarf að rýma svæði og hafa samband við marga í einu. Eitt af því sem kom út úr fundi allsherjarnefndar í morgun var að nú þegar verður farið í að margfalda og efla afl tiltekinna senda þannig að fjarskiptafyrirtækin geti gengið miklu lengur, allt að sólarhring ef svo ber undir, ef rafmagn fer út. Þetta er meðal þess sem við getum dregið lærdóm af strax og á líka við um óveðrið sem gekk yfir Norðurlandið með þessum afleiðingum. Það var mjög gagnlegt að ræða það hér og þakka ég fyrirspyrjanda og ráðherra fyrir þessa fínu umræðu.