141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

fjarskiptasjóður og forgangsverkefni hans.

[14:53]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Fyrir nokkrum árum flutti ég ásamt nokkrum öðrum þingmönnum tillögu til þingsályktunar um háhraðatengingar í dreifbýli og smærri þéttbýlisstöðum. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Háhraðanettenging flokkast sem grunnþjónusta í nútímasamfélagi …

Á meðan svo háttar til að mikill fjöldi Íslendinga býr ekki við háhraðatengingar og góðan aðgang að upplýsingahraðbrautinni eru heimabyggðir þeirra ósamkeppnishæfar þegar kemur að vali fólks og fyrirtækja til búsetu.“

Síðan hefur að sjálfsögðu margt breyst til betri vegar og stærstur hluti landsins er ágætlega tengdur en enn eru svæði utan þess að geta talist viðunandi tengd við háhraðanettengingar og fjarskipti af fullkomnustu gerð.

Á sínum tíma var ákveðið, eins og rakið var í upphafi máls málshefjanda, að fjarskiptasjóður færi ekki inn á tiltekin skilgreind samkeppnissvæði. Tilteknum hreppum var til dæmis skipt í tvennt þar sem var þjónustað af einkaaðila á háhraða um örbylgju og þar sem það var ekki gert. Það var góðra gjalda vert og virðingarvert og aðdáunarvert framtak hjá litlum aðilum að reyna af veikum mætti að miðla háhraðatengingum þar sem ekki var um að ræða fasttengingar í jörðu. En þessi ákvörðun og þessi skilgreining reyndist röng. Þetta var of þröng skilgreining og hún skildi þessi svæði, tiltölulega fámenn og strjálbýl, eftir utan viðunandi tengingar. Þetta skapaði ójafnræði á milli íbúa svæðanna og þeirra sem heyra undir fjarskiptasjóð og það er sú aðkoma fjarskiptasjóðs að háhraðatengingum sem þarfnast endurskoðunar og endurskilgreiningar þannig að sjóðurinn geti farið inn á tiltekin svæði. Sveitarfélög eins og Skeiða- og Gnúpverjahreppur eru að ljósleiðaravæða hreppinn og stórt sveitarfélag á eigin kostnað en það þarf að gæta jafnvægis. Nú skiptir háhraðaaðgengi að fyrsta flokks samskiptum sköpum hvað varðar búsetuskilyrði. Þess vegna er traust net á landinu öllu grundvallaratriði í nútímabyggðastefnu.

Það er ágætt að ræða þetta hérna og hvetja til þess að þessi skilgreining á fjarskiptasjóði og afkomu hans sé endurskoðuð.