141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

fjarskiptasjóður og forgangsverkefni hans.

[14:55]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Það er engin nýlunda og menn vita það að GSM-samband og netsamband víða á landinu er í ólestri. Það hefur oft verið rætt í þingsal. Það er ágætt að því hafi verið haldið til haga af hæstv. ráðherra að að hluta til sé þetta afleiðing einkavæðingarinnar á grunnneti símans sem voru mikil mistök á sínum tíma. Þó að Síminn hafi á sínum tíma ekki verið mjög gott þjónustufyrirtæki að öllu leyti — ég man þá tíð þegar það tók margar vikur að fá heimasíma tengdan en það hefur skánað — er grunnnet hans ein af grunnstoðum samfélagsins sem hefði áfram átt að vera undir eftirliti og verksviði hins opinbera. Forgangsröðunin miðast að sjálfsögðu við arðsemi hjá einkafyrirtækjum og þar er gróðanum fleytt ofan af en ekki hirt um ábyrgð á þeim sem skila ekki miklum hagnaði í kassa fyrirtækisins. Fjarskiptasjóður sem átti að sjá um þetta virðist ekki hafa valdið verkefni sínu.

Tiltölulega einföld spurning fyrir hv. þingmenn sem koma hingað upp í hverri einustu viku og tala um að mikilvægt sé að viðhalda byggð um allt land er: Myndu þeir flytja á landsvæði þar sem væri ekki netsamband? Myndu þeir flytja á landsvæði þar sem væri ekki GSM-samband? Svarið er einfaldlega nei, þeir mundu ekki gera það og engir landsmenn gera það.

Það er ekki boðlegt að hafa þetta fyrirkomulag. Hér er um sögulegt vandamál að ræða sem lagast ekki við það að benda alltaf á einhverja sökudólga. Það þarf einfaldlega að bretta upp ermar, eins og einhver sagði hér áðan, og koma þessum málefnum í lag.

Það er einfaldast í mínum huga að flytja grunnnet símans, bæði farsíma og farsímanet, til hins opinbera aftur svo að það sé skýrt hvar ábyrgðin liggi og jafnræði allra landsmanna að þessari þjónustu sé tryggt. Það þarf heldur ekki að vera dýrt vegna þess að tæknibreytingar eru örar og kynslóðaskipti farsímakerfa, t.d. úr þriðju kynslóð í fjórðu kynslóð, gera það að verkum að eldri tæknibúnaður úreldist og verður verðlaus. Þetta er því ekki spurning um að kaupa einhvern eldri tæknibúnað fyrir hið opinbera heldur yrði einfaldlega komið á og sett upp nýtt kerfi og það tekið yfir á algerum lágmarkskostnaði. Ég held að hæstv. innanríkisráðherra (Forseti hringir.) ætti að láta skoða það rækilega hvort ekki væri vænlegt að fara þá leið frekar en vera endalaust að púkka upp á (Forseti hringir.) fjarskiptasjóð sem nú tíu árum eftir stofnun hefur einfaldlega sýnt sig að virkar ekki.