141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

fjarskiptasjóður og forgangsverkefni hans.

[14:58]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu, ég held að hún sé mjög mikilvæg. Í þessum málaflokki þarf víða að gera verulegar úrbætur hvað þetta snertir því að ástandið vítt og breitt um landið er engan veginn nægilega gott. Við fáum í allt of miklum mæli, þingmenn, sveitarstjórnir og aðrir, upplýsingar um að á ákveðnum svæðum séu fjarskiptamál í lamasessi.

Hér í umræðunni um grunnnet símans er ég hjartanlega sammála þeim sem hafa tekið til máls um að rétt væri að við skoðuðum hvort ekki væri mögulegt að ríkið leysti það aftur til sín. Það er hárrétt hjá hæstv. innanríkisráðherra að það var í tíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem grunnnet símans var selt. En það er líka hárrétt sem hefur komið fram hérna, m.a. hjá hv. þm. Þór Saari, að það ber okkur ekki til neinna lausna að velta okkur upp úr þeirri fortíð. Ég veit að málshefjandi, hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson, er mér hjartanlega sammála um að það var rangt að selja grunnnet símans frá Símanum á sínum tíma. Þá var hann starfandi dýralæknir á Suðurlandi og sá sem hér stendur var háskólanemi við Landbúnaðarháskóla Íslands. En hæstv. innanríkisráðherra var þá starfandi þingmaður á Alþingi og barðist gegn því að grunnnetið yrði selt.

Nú er kjörið tækifæri fyrir hæstv. innanríkisráðherra, og ég veit að þingmenn allra flokka munu fylkja liði á bak við hann, að skoða hvort ekki sé mögulegt að ríkið leysi aftur til sín grunnnet símans. Ekki skortir ályktanir VG í þeim efnum. Á flokksráðsfundi VG, sem haldinn var 15.–16. janúar fyrir tveimur árum, var því beint til ríkisstjórnarinnar að leita leiða til að ríkið gæti eignast Mílu, grunnnet símans. Hv. þm. Árni Johnsen, hv. þm. Þór Saari, hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson og fleiri sem hafa tekið til máls munu styðja innanríkisráðherra fyllilega í þeirri baráttu að grunnnet símans verði aftur í þjóðareigu og ég hvet hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir því máli. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)