141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

fjarskiptasjóður og forgangsverkefni hans.

[15:03]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu. Ég þakka líka hæstv. ráðherra fyrir það sem hann gerði um síðustu áramót þegar hann framlengdi líftíma sjóðsins um fimm ár. Það er gríðarlega mikilvægt því að við vitum öll að verkefnum sjóðsins var ekki lokið.

Málið snýst að mínu mati fyrst og fremst um tvo þætti, annars vegar að óþarfi er að hafa of miklar áhyggjur af stöðum þar sem markaðslegar forsendur eru fyrir samkeppni, þó að auðvitað þurfi að hafa vissar áhyggjur af þeim, og hins vegar, eins og komið hefur fram hjá mörgum hv. þingmönnum, að það er mjög mikilvægt út frá byggðalegu sjónarmiði og öryggissjónarmiði að koma GSM-sambandi og nettengingu í betra horf. Það eru verkefnin sem eru fram undan sem við þurfum að ráðast í.

Auðvitað þarf að tryggja sjóðnum nægilegt fjármagn til að geta gengið í þau verkefni. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson kom með ábendingu áðan um hvort ekki þurfi að skilgreina betur þau svæði sem sjóðurinn má fara inn á. Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að skoða það betur. Nú þekki ég ekki hvort hann hefur svigrúm til þess eða hvort það er bundið í svokallaðar EES-reglur. Það getur verið að það hafi fallið á milli skips og bryggju, eins og stundum er sagt, og er auðvitað mikilvægt að fara yfir það.

Virðulegi forseti. Það er gríðarlega mikilvægt að jöfn búsetuskilyrði séu fyrir hendi hvar sem menn búa á landinu, hvort heldur sem það snýr að GSM-sambandi eða nettengingu, til að samfélög geti þrifist í nútímanum, að landsmenn hafi jafnan aðgangur að þessari þjónustu.