141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

fjarskiptasjóður og forgangsverkefni hans.

[15:05]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa þörfu umræðu. Það skiptir mjög miklu máli að við ræðum þessi mál. Það var ekki rétt ákvörðun að selja grunnnet símans og því miður er fjárhagsstaða ríkisins þannig að við höfum ekki efni á því að leysa grunnnetið til okkar aftur núna, en að því þurfum við að stefna. Það er eðlilegt að jafnmikilvæg auðlind og fjarskipti eru fyrir byggð í landinu sé í eigu og umsjá hins opinbera.

Eins og hér hefur verið sagt eru fjarskipti víða í ólestri í dreifðustu byggðum landsins. Víðs vegar eru þau mál í alveg þokkalega góðu lagi en því miður er ekki svo alls staðar. Ég var sveitarstjórnarmaður þegar fjarskiptasjóðsútboðið var gert og ég verð að segja að ég skildi eiginlega ekki alveg þessar markaðslegu forsendur vegna þess að að í dreifðustu byggðum landsins er ekki mikið um markaðslegar forsendur, það er bara þannig.

Alltaf er að koma fram ný tækni; talað er um ljósnet, 4G, talað er um ýmislegt. Er ekki bara komið að því að þetta markaðsdót verði bara afskrifað og við tökum upp nýjar reglur þannig að þetta verði alveg á hreinu? Dreifðustu byggðir landsins hafa í raun mesta þörf fyrir háhraðatengingu og GSM-samband öryggisins vegna og vegna ákveðinna verkefna og félagslegrar einangrunar. Ég held því að við hljótum að verða skoða betri leið. Þessar markaðslegu forsendur eru hreinlega brostnar, þess vegna er tímabært að endurskoða málið með byggðastefnu að leiðarljósi.