141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

fjarskiptasjóður og forgangsverkefni hans.

[15:09]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega þá málefnalegu umræðu sem farið hefur fram og mér heyrist allir þingmenn sem hér hafa talað vera sammála. Því er nokkuð augljóst að hæstv. ráðherra þarf ekki að vera að velta fyrir sér fortíðinni í þessu máli heldur því hvað hann og ríkisstjórnin geta gert í framtíðinni. Það er greinilega breiður stuðningur við þá hugmyndafræði sem hér hefur verið rædd. Ef ég hefði verið spurður á sínum tíma hvort einkavæða ætti grunnnet símans hefði ég sagt nei. Ég hef alla tíð verið á móti því og hef barist fyrir því síðan ég settist á þing að þessi leið yrði farin, þ.e. að bæta nettengingu og slíkt þar sem þess er þörf.

Þetta hefur ekkert með EES-samninginn að gera því að þá mundu ekki nágrannaríki okkar á Norðurlöndum geta gert það sem þau eru að gera. Við eigum að horfa yfir svona hluti. Við búum í landi langt norður í Atlantshafi. Við búum við sérstakar aðstæður og við eigum að leita allra leiða til að bæta þessi mál. Það er hægt.

Varðandi Mílu svaraði hæstv. ráðherra engu um stefnu ríkisstjórnarflokkanna eða um eigin stefnu í því máli. Um næstu áramót á að taka upp stafrænt sjónvarp. Víða um land verður ekkert hægt að horfa á sjónvarp eftir það sem ekki er tengt ljósleiðara, beintengt, vegna truflana í örbylgjusendum hingað og þangað, það er einfaldlega þannig. Auðvitað mun tæknin hjálpa til. En við eigum að hætta að velta fyrir okkur — eða ég hélt alla vega að það væri nýja pólitíkin í þinginu — hvað gert hefur verið í fortíðinni heldur eigum við að hugsa um hvað við getum gert hér og nú. Nú eru nýir tímar, hæstv. innanríkisráðherra, það er rétt, en hvað hyggst hæstv. ráðherra gera til að jafna búsetuskilyrði landsmanna? Hver er stefnan? Ætlar hæstv. ráðherra að breyta áherslum fjarskiptasjóðs, til að mynda forgangsröðun, og fara fyrst á þau svæði þar sem skilyrðin eru verst á landinu og þurfa á mestum úrbótum að halda? Ætlar ráðherrann líka að breyta áherslum fjarskiptasjóðs um þessi samkeppnissvæði?

Ég spurði þáverandi samgönguráðherra árið 2009 um hvort til greina kæmi að kaupa upp þessi litlu fyrirtæki sem því miður þvælast fyrir á þessum markaði, talað var um 500 milljónir í því efni. (Forseti hringir.) Svar þáverandi samgönguráðherra var nei. Hvert er svar núverandi innanríkisráðherra sem fer með fjarskiptamál?