141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

fjarskiptasjóður og forgangsverkefni hans.

[15:11]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er einmitt það sem ég vil að við gerum, höldum okkur við samtímann og horfum inn í framtíðina. Ég hef talað fyrir fjarskiptaáætlun. Þar er að finna stefnumótun og ýmsar tillögur og ég bíð þess að þingið taki þær til umfjöllunar.

Vikið hefur verið að fjarskiptasjóði. Hann hefur staðið sig mjög vel. Honum eru settar skorður, þær eru fjárhagslegar. Hann hefur úthlutað því fjármagni sem hann hefur til ráðstöfunar, hann hefur notað hverja einustu krónu og stuðst við sanngirni og fagmannleg vinnubrögð, ég fullyrði það.

Síðan var það gæfuspor að framlengja líf þessa sjóðs og þarf að tryggja honum tekjur vegna þess að víða eru brotalamir. Við skulum horfa til þess sem vel hefur verið gert. Eftir að fjarskiptasjóður var settur á laggirnar var hafist handa við að reyna að stoppa í götin. Í fyrstu áföngunum voru 50 vegakaflar bættir og þá fengu 1.700 heimili og fyrirtæki tengingu. En eins og komið hefur fram í umræðunni snýst þetta ekki bara um tengingu heldur líka um gæði tenginganna. Í dag sendi innanríkisráðuneytið formlegt bréf til Póst- og fjarskiptastofnunar þar sem stofnunin var beðin um að koma með tillögur að því að mæla gæði nettenginga á landsbyggðinni og skilgreina ákveðin lágmarksviðmið. Um það held ég að við séum öll sammála að þurfi að tryggja.

Þá er hin spurningin: Verður snúið til baka? Til er mismunandi fyrirkomulag hvað þetta snertir. Á ráðstefnu sem ég sótti í Poznan í Póllandi í fyrra kom meðal annars fram að Ástralir hafa ríkisnet á landsbyggðinni. Eigum við að taka þann kostinn? Það er dýr kostur, en ef við ætlum að stoppa upp í götin er það síðasta prósentan, mesta dreifbýlið er alltaf erfiðast og þangað hafa markaðsfyrirtækin ekki farið. Ef við lítum til EES-löggjafar snýst hún um það að þegar maður hefur markaðsvætt grunnnetið gilda um það ákveðnar reglur hvar maður má fara inn og hvar maður má ekki fara inn.

Hér var vakið máls á því að við getum tekið til skoðunar skilgreininguna á markaðsbrestum. Að minnsta kosti tveir hv. þingmenn hafa vakið máls á því þannig að fjarskiptasjóði yrði skapað meira svigrúm (Forseti hringir.) til að fara inn á svæði sem við teljum ekki vera ásættanleg, meðal annars með tilliti til gæða tenginganna. (Forseti hringir.) Það er nokkuð sem við þurfum að skoða í sameiningu á Alþingi.