141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[15:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Lúðvík Geirsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Einkavæðingin sem fór fram á sínum tíma og við erum hér að ræða um rannsókn á er upphafspunktur þess hruns sem við stöndum frammi fyrir. Það er rétt að hafa það í huga. Það sem gerðist síðan eftir hrunið með það að ríkið sat uppi með þessar hrundu stofnanir er í raun eftirleikur af því öllu saman. Það er mikilvægt að hafa það í huga. Þetta eru tveir aðskildir þættir. Ég lagði áherslu á það í máli mínu að það er rétt, og ekkert að því, að skoða ferlið í kringum þau mál bæði. Ef menn halda að þar séu einhverjir hlutir sem hefðu mátt fara betur er bara gott fyrir þingið og samfélagið allt að fá þau gögn og þær upplýsingar upp á borðið.

Ég tel skipta máli að við fáum úttektina á einkavæðingunni sem allra fyrst. Jafnvel þó að það verði afgreitt frumvarp hér mjög fljótlega hvað þau mál snertir er ljóst að það ferli mun taka tíma og það gerist ekki á einni nóttu. (Forseti hringir.) Við höfum þá nægan tíma til að draga lærdóm af því og hafa það í höndunum (Forseti hringir.) við þá útfærslu.