141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[15:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lúðvík Geirssyni fyrir ræðuna. Þetta mál er komið fyrir þingið í annað sinn. Þeir sem hafa fylgst með máli ríkisstjórnarflokkanna í þinginu um að rannsaka einkavæðingu bankanna 2002 hafa sjálfsagt séð að ég flutti sömu breytingartillögu í fyrra og ég geri nú. Ég kem til með að kynna hana á eftir.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hvers vegna í ósköpunum lagði ekki meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar það til fyrir þinglok í vor að þessi þingsályktunartillaga yrði afgreidd út úr þinginu þá? (Gripið fram í.) Þá hefði getað staðið dagsetningin sem var upphaflega í tillögunni, að rannsókninni yrði lokið 15. mars 2013, þ.e. fyrir alþingiskosningar, í stað þess að fresta málinu fram á annað þing og fresta þar með rannsókninni langt inn á nýtt kjörtímabil.