141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[15:38]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er dæmalaust sjónarspil að fara svona fram með málið. Málið var tilbúið í allan fyrravetur. Úr því að það er svona mikið mál hjá ríkisstjórnarflokkunum að fara af stað með þessa einkavæðingu sem ég styð, hvers vegna setti þá ekki meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þetta mál í forgang? Það er alveg hreint með ólíkindum að kenna stjórnarandstöðunni um að einhver mál hafi ekki náðst í gegnum þingið í vor þegar þingstörfum var að ljúka. Þetta er sjónarspil, frú forseti, enda sést það í umræðum núna þegar þetta mál er komið á dagskrá í annað sinn að hv. þm. Lúðvík Geirsson hefur breytt breytingartillögu og dregið til baka það sem sneri að því að rannsókn ætti að vera lokið fyrir 15. apríl 2013 og sett þetta langt inn á næsta kjörtímabil. Við hvað eru ríkisstjórnarflokkarnir hræddir? Út af (Forseti hringir.) hverju er þetta frestunarákvæði lagt til?