141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[15:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Lúðvík Geirsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hefur komið fram í umræðunni og við þekkjum til í þinginu standa yfir tvær ítarlegar rannsóknir og hafa staðið yfir um nokkurt skeið, annars vegar á hruni sparisjóðanna og hins vegar á Íbúðalánasjóði. Tvær sjálfstæðar rannsóknarnefndir hafa verið að vinna að þessum málum og þeim hefur verið sköpuð vinnuaðstaða úti á Seltjarnarnesi þar sem landlæknir hafði áður aðstöðu. Svona rannsóknarnefnd fylgir starfslið og þjónusta. Það hefur verið horft til þess þar sem fyrir liggur að þessi tillaga er hér á borðum að um leið og starfi þeirra rannsóknarnefnda lýkur gæti þetta verkefni komið þar inn á borð, fengið þar aðstöðu og þjónustu til að fylgja þessum spurningum og málum eftir.

Samkvæmt mínum upplýsingum liggur það núna fyrir að þær rannsóknarnefndir munu skila af sér í og upp úr áramótum sem leiðir þá til þess að þetta verkefni fái að fara á fulla ferð.