141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[15:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Lúðvík Geirsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir þessar skýru, afdráttarlausu spurningar. Ég get ekki fallist á það með hv. þingmanni að einhver síðari einkavæðing hafi átt sér stað. Það átti sér stað einkavæðing árið 2002 en það sem gerðist hins vegar eftir hrun var bein afleiðing af því sem þjóðin og stjórnin stóðu frammi fyrir, að þurfa að taka yfir þessar eignir.

Í öðru lagi: Verður hluti þessara eigna seldur? Já, ég á fyllilega von á því að það verði gert að einhverjum hluta. Ég held að það sé rétt að menn geri það í áföngum og vandi sig mjög í því verki. Ég hef ekki heyrt og skilið ummæli núverandi hæstv. fjármálaráðherra á annan veg en þann að hún vilji að almenningur komi virkur inn í þau kaup og að þessar stóru fjármálastofnanir samfélagsins verði eins mikið í eigu fólksins í landinu og kostur er.

Varðandi þátt ríkisins á fjármálamarkaði þá held ég að ljóst sé að við verðum alltaf með einhverju móti að geta verið aðili að húsnæðislánum til þess að jafna aðstöðumun milli þéttbýlis og dreifbýlis.