141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[15:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi þetta síðasta er það ánægjulegt að hv. þingmaður líti þannig á að Byggðastofnun starfi bara úti á landi, þá má selja hinn hlutann. Telur hv. þingmaður ekki nauðsynlegt að hafa ákveðna samfellu í allri sögunni? Vegna þess að þegar búið er að rannsaka einkavæðingu bankanna hina fyrri liggja þegar fyrir upplýsingar um hrunið og um einkavæðinguna hina síðari. Ég er ekki sammála hv. þingmanni, auðvitað voru bankarnir einkavæddir í síðara skiptið. Það er nauðsynlegt að fá upplýst hvernig það var gert allt saman. Telur hv. þingmaður ekki nauðsynlegt að fá þessa samfelldu sögu?

Það er nefnilega ekki mikið meiri vinna að kanna allt saman en að kanna bara fyrri hlutann. Telur hv. þingmaður ekki nauðsynlegt að slík samfelld saga liggi fyrir áður en við förum að selja almenningi þessa banka þannig að menn geti varast þau miklu mistök sem voru gerð í einkavæðingunni hinni fyrri?