141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[15:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Lúðvík Geirsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég er hjartanlega sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal um að það skipti máli að það sé samfella í þessari sögu. Við fáum brot af sögunni inn á borðið núna með úttektinni á sparisjóðahruninu. Við höfum fengið brot af þessari sögu, stórt brot, í rannsóknarskýrslunni stóru. Þar vantar inn marga púslbita. Við fáum hluta af henni varðandi afleiðingarnar gagnvart Íbúðalánasjóði. Hér er verið að leggja til að sá þáttur sem lýtur að einkavæðingunni, og er kannski upphafið að öllu saman, verði tekinn út.

Ég lagði áherslu á í máli mínu hér á undan að það væri einmitt nauðsynlegt að taka á þeim þætti sem lýtur að seinni hluta þeirra mála sem vikið er að í breytingartillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur. Ég sé samfelluna þannig, þótt þau mál séu sett aðskilin í úttekt, að sá aðili sem fer í einkavæðingarþáttinn geti í beinu framhaldi af því tekið upp þetta mál sem liggur fyrir tillaga um, farið í það og afgreitt það en ég vil gjarnan að það sé gert hvort á eftir öðru.