141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[16:20]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir spurningar hans. Ég er ekkert viss um að einkavæðingin síðari hafi verið ill nauðsyn. En við alla vega stöndum frammi fyrir henni, hvaða leið sem farin var því að hún varð nánast á einni nóttu og á ýmislegt eftir að rannsaka í því ferli, eins og ég fór yfir varðandi það hverjir komu að matinu á því hversu verðmætir bankarnir væru o.s.frv.

Við vitum að erlendir kröfuhafar tóku bankana yfir og þeir reka þá. Nú er spurning um hvort við eigum að setja allan varagjaldeyrisforða okkar í gömlu bankana með því að setja þá í nauðasamninga í stað þess að þeir fari bara þrotaleiðina, verði settir í gjaldþrot.

Það var líka spurning um hvort einhverjir af þessum bönkum yrðu hreinlega gerðir gjaldþrota á sínum tíma því að við vitum að íslenska bankakerfið er allt of stórt fyrir þessa fámennu þjóð. Þess vegna var að mínu mati algjörlega ástæðulaust á sínum tíma að ríkið tæki alla bankana í fangið og einkavæddi þá að nýju. Hver hefur hagnað af því?

Varðandi þetta annað þrep og áskorun til mín um að breyta breytingartillögu minni í það að hægt sé að gera þetta í tveimur þrepum þá liggur breytingartillaga mín fyrir á þingskjali og um hana verða greidd atkvæði. En ég skora á hv. þm. Pétur H. Blöndal að leggja fram sína eigin breytingartillögu á málinu því að nú er það til síðari umr. Hv. þingmaður getur kynnt breytingartillögu sína í umræðunum á eftir og svo greitt atkvæði um hana. Það væri þá hugsanlega einhver málamiðlun þannig að hægt sé að komast inn í anddyrið á rannsókninni á einkavæðingunni hinni síðari.