141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[16:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ekki vil ég tefja málið, en hugsanleg lausn á því gæti verið sú að málinu yrði frestað og tekið í nefnd í síðari umr. til að fara í gegnum það hvort hægt sé að búa til tillögu. Nefndin gæti þá flutt tillögu um að þingsályktunartillögunni yrði breytt þannig að fyrst væri farið í skoðun á einkavæðingunni hinni fyrri, sem ég tel mjög nauðsynlegt, og væri þá gefinn ákveðinn tímafrestur til þess. Síðan mundi sama fólk halda áfram að rannsaka, því að það er með öll gögnin og alla samfelluna, og halda áfram að rannsaka einkavæðinguna til dagsins í dag.

Nú er spurning hvort almennur vilji sé fyrir því, kannski hjá framsögumanni eða formanni nefndarinnar, að þessi leið yrði farin. Ég veit ekki hvort ég treysti mér til að koma með þingsályktunartillögu sem sættir sjónarmið allra þingmanna. Þótt ég sé maður sátta þá þyrftu menn að ræða það aðeins betur hvernig það yrði gert. Ég hugsa þó að það sé nú alveg einnar messu virði að skoða hvort slík sáttaleið sé til sem allur þingheimur raunar getur sæst á. Það stefnir í það einhvern tímann í framtíðinni, eftir kannski tvö, þrjú, fjögur ár, að þessir bankar verði seldir og þá er eins gott að gera ekki sömu mistökin aftur, hvorki í einkavæðingunni fyrri né þeirri seinni.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að þessar upplýsingar liggi á borðinu þannig að hugsanlegir kaupendur, einstaklingar og aðrir, hafi betri og meiri trú á dæminu en þeir hafa núna.