141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[16:38]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir fyrirspurn hennar og mér er ljúft og skylt að leiðrétta þann misskilning að ég hafi eitthvað á móti þeirri rannsókn. Þvert á móti. Ég taldi mig hafa tjáð það hér býsna skýrt og skorinort að ég styð þá tillögu hennar að það fari fram sjálfstæð rannsókn á hinu síðara ferli en lagði áherslu á að það er ekki einkavæðing í þeim skilningi að verið sé að koma mikilvægu ríkisfyrirtæki í hendur einkaaðila. Hinir föllnu bankar hrundu í fangið á Fjármálaeftirlitinu sem samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki hafði það hlutverk með höndum að koma þeim í slitameðferð. Það er full ástæða til þess að rannsaka það en það er ekki efnislega sambærilegt við þá einkavæðingu sem hér er til umfjöllunar.