141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[17:04]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu enn ein tillagan um rannsókn á einkavæðingu bankanna, áratugagamalli einkavæðingu sem Ríkisendurskoðun hefur þegar rannsakað og rædd hefur verið í þaula. Maður veltir fyrir sér hvort hér sé sambland einhvers konar þráhyggju eða úthugsaðrar tilraunar til að draga athygli manna frá raunverulegum rannsóknarefnum og að ímynduðum. Eins og hér hefur verið rætt nokkuð ítarlega í dag eru uppi ýmis sjónarmið um hvort rannsaka eigi einkavæðinguna hina síðari eða hvað menn vilja kalla þá einkavæðingu, stöðu bankanna og eignarhald á þeim í dag. Sitt sýnist hverjum um það.

Gott og vel, þessi tillaga liggur hér fyrir. Það hefur líka verið umræða um það fyrr í dag hverju sæti þessi hringlandaháttur eins og virðist vera um tímasetningu á skilum á þessari skýrslu. Í tillögunni er lagt til að skilin verði á næsta kjörtímabili.

Því var svarað þannig til við fyrirspurn frá hv. þingmanni að vísað var til starfsreynslu hans á Alþingi og vinnubragða hér án þess að það hafi verið útskýrt nánar. Nú vona ég, virðulegi forseti, að mér líðist að impra aftur á þessu í ljósi skammrar starfsreynslu minnar á Alþingi. Mér hefur ekki virst nein andstaða við það að skýrslu þessari verði skilað sem fyrst og þá finnst mér einkennilegt hversu mjög það getur þvælst fyrir meiri hluta nefndarinnar og flutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu.

Ég velti reyndar fyrir mér í því sambandi hvort það geti verið að efni þessarar tillögu sé þess eðlis að jafnvel sá frestur sem menn ganga út frá í tillögunni eins og hún er í dag, sem er fram í september á næsta ári, dugi ekki til að svara þeim víðtæku og loðnu spurningum sem lagðar eru fram í þingsályktunartillögunni. Ég velti fyrir mér hvort ekki hefði verið faglegra, af því að það er vinsælt hugtak í þessu sambandi, og vænlegra til árangurs að afmarka betur efni hennar. Ég nefni til dæmis að nefndinni sem verður skipuð er ætlað að leggja mat á þær afleiðingar sem framkvæmd einkavæðingar bankanna hafði fyrir íslenskt samfélag. Þetta er óskiljanleg tillaga og yfirgripsmikil.

Dæmi um óskýrt orðalag og villandi að verulegu leyti og heftandi fyrir þessa tilvonandi nefnd ef af verður er að henni er ætlað að leggja fram tillögur til úrbóta varðandi sölu á eignarhlutum ríkisins í framtíðinni. Hér virðast flutningsmenn þessarar tillögu alls ekki gera ráð fyrir því að hin faglega nefnd sem skipuð verður komist að þeirri niðurstöðu að það hafi ekki verið neitt athugavert í því einkavæðingarferli sem hér er til skoðunar. Ég tel að flutningsmönnum þessarar tillögu hefði átt að vera það umhugsunarefni hvort ekki væri rétt að afmarka betur þessa tillögu ef sá vilji er virkilega fyrir hendi að þessi skýrsla liggi fyrir á þessu kjörtímabili.

Ég vona að mér líðist að velta upp og nefna hér að mér finnst ekki boðlegt að leggja fram tillögu um svona viðamikla skýrslugerð án þess að nefna einu orði hver kostnaðurinn af henni kunni að verða. Nú stendur yfir vinna rannsóknarnefnda vegna tveggja mála, þ.e. Íbúðalánasjóðs og sparisjóðanna. Það liggur fyrir að sú vinna kostar á bilinu 400–500 millj. kr. Er ekki hægt að gera kröfu til þess að tillögu sem þessari fylgi einhver kostnaðaráætlun eða einhverjar hugmyndir manna um hvað kosti að rannsaka áratugagamla einkavæðingu svo menn geti sett það í samhengi við annað sem dynur á þjóðinni þessa dagana, annan kostnað sem skattgreiðendur þurfa að bera?

Ég vil hins vegar nefna að það er að minnsta kosti einn kostur við að rannsókn sem þessi fari fram. Árum saman hafa ýmsir álitsgjafar og meinlokumenn leyft sér að hafa uppi gífuryrði um einkavæðinguna gömlu. Þeir hafa haft uppi stór orð um menn, jafnvel haldið því fram að einhverjir vildarvinir hafi fengið bankana gefins og það án þess að rökstyðja hvernig sú vildarvinátta ætti að hafa komið til. Ég tel að niðurstaða sem vænta má af þessari rannsóknarnefnd, þ.e. verði þessi nefnd skipuð faglega og ef hún vinnur af heiðarleika, verði öflugt vopn þeirra sem kunna að vilja leita réttar síns gagnvart þessum fullyrðingamönnum sem hafa gengið fram af miklu offorsi undanfarin missiri í umræðum um þessa einkavæðingu.

Ég vil svo að vísu taka fram að mér finnst ekki trúverðug útskýring hv. 11. þm. Suðvest. til stuðnings þeirri skoðun sinni að breytingartillaga hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur eigi ekki erindi inn í þessa þingsályktunartillögu. Breytingartillagan lýtur einmitt að mjög afmörkuðum þáttum bankanna í dag. Þetta er skoðun sem tæki vafalítið skamman tíma að fara fram og ég teldi til bóta að sú breytingartillaga næði fram að ganga.