141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[17:19]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal. Það var mjög mikilvægt að selja bankana, einkavæða þá. Sú lýsing sem hann brá upp af samskiptum sínum, þá ungur maður, við ríkisbankana er lýsing sem margir Íslendingar kannast við, að það hafi skipt máli að þekkja mann eða annan, að flokksskírteinið hafi talað og minna máli skipt að menn hefðu áætlun um hvernig þeir gætu greitt lán sín til baka, í hvað þau yrðu notuð o.s.frv. Það skipti máli fyrir íslenskt efnahagslíf að draga úr völdum stjórnmálamannanna, færa völdin frá þeim sem sitja á Alþingi og frá ráðherrunum, dreifa þeim og auka þannig líkurnar á að hægt væri að byggja upp öflugt efnahagslíf.

Virðulegi forseti. Vegna þeirrar tillögu sem hér er til umræðu vil ég strax segja þetta: Ég tel eftir á að hyggja, þegar litið er yfir farinn veg, að það hefði verið hægt að standa öðruvísi að sölu bankanna. Eitt af því sem mér finnst blasa við er að sú staða að helstu eigendur bankanna væru um leið líka umsvifamiklir á hlutabréfamarkaði fól í sér gríðarlega hættu fyrir fjármálakerfið, hættu á aukinni skuldsetningu fyrirtækja, og það hefðu mátt vera skýrari skil á milli bankastarfseminnar annars vegar og eignarhalds á fyrirtækjum skráðum á markaði. Það er auðvelt að vera vitur eftir á en ég tel eindregið að við þurfum meðal annars að læra þetta af nýliðinni reynslu.

Mál þetta á sér allt nokkurn aðdraganda. Ég rifja upp að Landsbankinn sem þá var í eigu ríkisins þurfti á því að halda á sínum tíma, þá ríkisbanki, að teknir yrðu fjármunir úr okkar sameiginlegu sjóðum og færðir inn í bankann, þá þegar hann var í ríkiseign, vegna þess að hann væri kominn nokkurn veginn í þrot. Eignarhald ríkisins tryggir ekki að bankastofnanir standi keikar og lendi ekki í vandræðum, þvert á móti eru fjölmörg dæmi um hið gagnstæða. Og Íbúðalánasjóður hefur verið nefndur í þessari umræðu, og að gefnu tilefni. Tugir milljarða af fjármunum skattgreiðenda hafa nú þegar verið veittir inn í þann sjóð til að koma í veg fyrir gjaldþrot hans. Ekki sér fyrir endann á því.

Auðvitað hljótum við að spyrja okkur hvort ekki sé nauðsynlegt að hið fyrsta liggi fyrir úttekt á þeim ákvörðunum, mat á þeim og hverjir beri ábyrgð á þeim ákvörðunum sem hafa leitt til þess að Íbúðalánasjóður stendur nú eins og raun ber vitni. Það skiptir máli og það verður áhugavert að sjá niðurstöðu úr þeirri rannsókn.

Hvað varðar þá rannsókn sem hér er lögð til er ég sammála þeim hv. þingmönnum sem hafa mælt með því að þessi rannsókn fari fram. Ég tel sjálfsagt og eðlilegt að við skoðum þetta mál allt saman í samhengi, og væri annaðhvort í ljósi þeirra atburða sem áttu sér stað hér á haustmánuðum 2008.

Virðulegi forseti. Upphaflega var lagt til að rannsóknin kláraðist 15. mars en síðan var lagt til að gefinn yrði lengri tími. Ég ætla aðeins að gera þessar tímasetningar að umtalsefni, virðulegi forseti. Ég hafði ekki mikinn tíma en gaf mér þó smátíma í dag til að fara yfir þau gögn sem ég fann í fljótheitum og þær rannsóknir og skýrslur sem hafa verið unnar nú þegar um þessi mál, um einkavæðingu á Landsbankanum, Búnaðarbankanum og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Þar er reyndar af nokkru að taka. Það er til töluvert af gögnum sem rannsóknarnefndin hlýtur að geta nýtt sér til að stytta sér leið. Eftir að hafa farið, reyndar nokkuð hratt, yfir þær spurningar sem lagt er upp með í tillögunni sýnist mér blasa við að mörgum þeirra verður hægt að svara tiltölulega auðveldlega á grundvelli þeirra gagna sem fram hafa komið, gagna sem unnin yrðu fyrst og síðast af Ríkisendurskoðun, þeirri stofnun sem við alþingismenn berum traust til. (Gripið fram í.) Ég tel ástæðu til að líta svo á að þau gögn sem frá henni hafa komið um þetta mál séu ágætur leiðarvísir.

Ég vil taka sem dæmi eina spurningu í þingsályktunartillögunni sem snýr að ábyrgð og aðkomu ráðherra. Þar er meðal annars spurt hvort óeðlileg tengsl sem hefðu getað leitt til vanhæfis hafi verið milli kaupenda bankans og seljenda og einstakra ráðherra sem báru ábyrgð á sölu hlutabréfanna í bönkunum tveimur. Þá er til að taka að þann 13. júní 2005 birti Ríkisendurskoðun skýrslu um hæfi Halldórs Ásgrímssonar, þáverandi forsætisráðherra og fyrrverandi utanríkisráðherra, til að fjalla um sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbanka til S-hópsins. Ég hef þessa skýrslu hér. Í henni er tekið á þessari spurningu sem hér er í raun verið að fjalla um og ætti þá að stytta nefndinni nokkuð vinnu sína eða auðvelda henni, þ.e. að hafa aðgang að þessari skýrslu sem ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en að Ríkisendurskoðun hafi unnið af samviskusemi og vandvirkni.

Í umræðunni vakti hv. þm. Pétur H. Blöndal upp umræðu um þær spurningar sem Vilhjálmur Bjarnason, formaður Samtaka fjárfesta eitt sinn og mikill áhugamaður um hlutabréfamarkaði, hafði sett fram um söluna á 45,8% hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Hann hafði varpað því fram í fréttaskýringaþættinum Silfri Egils að hann byggi yfir gögnum sem settu þá sölu í nokkurt annað ljós en hafði verið á þeirri sölu, einkum og sér í lagi vegna aðkomu bankans Hauck & Aufhäuser. Ríkisendurskoðun sendi af þessu tilefni samantekt, dagsetta 28. mars 2006, til formanns fjárlaganefndar um fund Vilhjálms Bjarnasonar með Ríkisendurskoðun vegna nýrra gagna og upplýsinga um sölu 45,8% hlutar ríkisins í Búnaðarbankanum til hins svokallaða S-hóps þar sem farið er í nokkru máli yfir þær athugasemdir sem Vilhjálmur Bjarnason gerði og síðan þau skjöl og þær upplýsingar sem Ríkisendurskoðun aflaði sér í tilefni þeirra spurninga sem Ríkisendurskoðun tók saman og sendi sem samantekt til formanns fjárlaganefndar.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara í efnislega niðurstöðu þessa svars en tiltek þetta hér vegna þeirra orða sem hv. þm. Pétur H. Blöndal lét falla um spurningar Vilhjálms Bjarnasonar og ég hjó eftir. Um þær hefur sem sagt að nokkru verið fjallað af hálfu Ríkisendurskoðunar og síðan var sent um það sérstakt bréf.

Ég vil líka vekja athygli á tveimur mjög áhugaverðum minnisblöðum sem Ríkisendurskoðun tók saman, þ.e. annars vegar minnisblaði og hins vegar samantekt, sem bæði eru dagsett 7. júní 2005. Með leyfi forseta, var efni minnisblaðsins þetta:

„Nánar um nokkur atriði sem tengjast sölu á hlut ríkisins í Landsbanka og Búnaðarbanka til kjölfestufjárfesta á árinu 2002.“

Efni samantektarinnar var, með leyfi virðulegs forseta:

„Svör við spurningu sem beint var til Ríkisendurskoðunar á fundi fjárlaganefndar hinn 28. apríl 2005 um sölu á hlutum ríkisins í Landsbankanum og Búnaðarbankanum til kjölfestufjárfesta árið 2002 og fleiri.“

Í samantektinni eru 34 spurningar sem komu fram á þeim fundi frá fjárlaganefndarmönnum og svör Ríkisendurskoðunar við þeim spurningum. Ég ætla að nefna af handahófi nokkrar af þeim fyrstu:

Lá fyrir mat á kaupgetu þeirra sem mynduðu S-hópinn?

Hver voru rökin sem ráðherranefndin færði fyrir því að selja báða ríkisbankana í einu?

Hver var ástæðan fyrir því að S-hópurinn fékk „framvirkan samning“, þ.e. þurfti ekki að staðgreiða kaupverðið?

Hvaða gögn liggja fyrir um samsetningu S-hópsins eins og hann var hinn 15. nóvember 2002?

Og svo framvegis, þetta eru 34 spurningar sem Ríkisendurskoðun gerir sitt besta til að svara.

Þarna er heilmikill efniviður sem ætti líka að nýtast þessari rannsóknarnefnd til að svara þeim spurningum sem hér er velt upp.

Í desember 2003 var birt af hálfu Ríkisendurskoðunar skýrsla sem heitir Einkavæðing helstu ríkisfyrirtækja árin 1998–2003. Þar er farið nokkuð ítarlega yfir þau álitaefni sem höfðu komið fram um sölu bankanna og athugasemdir Ríkisendurskoðunar þar um. Ríkisendurskoðun sér bæði kosti og galla á framkvæmd þessarar einkavæðingar, enda má búast við slíku þar sem um er að ræða mjög flóknar og erfiðar ákvarðanir um margt þar sem miklir hagsmunir voru undir og töluvert flækjustig sem þurfti að greiða úr. Þarna er því ekki um að ræða einhverja yfirferð þar sem menn hafa ekki kafað ofan í málin, að mínu mati, þvert á móti hefur af hálfu Ríkisendurskoðunar verið reynt að bregða sem skýrustu ljósi á þau mál sem hér er um að ræða.

Einnig vil ég vekja athygli á greinargerð frá Ríkisendurskoðun um útboð á fjórðungshlut ríkisins í Landsbanka Íslands sem birt var í október 2002. Ég ætla að leyfa mér að lesa upphaf álitsins, virðulegi forseti, með yðar leyfi:

„Við val á áhugaverðum kaupanda á hlut ríkisins í Landsbanka Íslands hf., voru þær verklagsreglur, sem gilda um sölu ríkisfyrirtækja, ekki brotnar. Þegar á heildina er litið verður ekki dregin önnur ályktun en að sú niðurstaða að áhugaverðast hafi verið að ganga til beinna viðræðna við Samson ehf. sé sannfærandi og eðlileg miðað við þær forsendur og áherslur, sem lagðar voru til grundvallar valinu.“

Þetta var álit og niðurstaða Ríkisendurskoðunar í október 2002.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að allar þessar rannsóknir og öll þessi gögn séu til staðar er sjálfsagt mál og eðlilegt að til þessarar rannsóknar verði boðað og efnt og farið í gegnum þær spurningar sem hér eru lagðar fram. En mér sýnist að það eigi að vera hægt að vinna þetta hraðar, og raunverulega á þeim tíma sem flutningsmenn málsins töldu upphaflega nægan, þ.e. fyrir 15. mars á næsta ári. Mörg þessara gagna liggja fyrir. Margar þeirra spurninga sem velt er upp í þingsályktunartillögunni hafa komið fram áður og verið tilefni rannsókna og skýrslna Ríkisendurskoðunar. Nóg um það að sinni, virðulegi forseti.

Það er líka rétt að hafa í huga hvað varðar sölu þessara banka á sínum tíma að það hafði verið leitað logandi ljósi að kaupendum að þessum bönkum. Það er ekki svo að kaupendur hafi á sínum tíma beðið í röðum eftir að komast að. Þær fullyrðingar sem heyrast svo gjarnan, að það hafi verið einhverjir handvaldir sérstakir vinir þáverandi ráðherra og þeirra stjórnmálaflokka sem mynduðu þá ríkisstjórn sem sat að völdum þegar þessi einkavæðing fór fram, eru fráleitar. Salan á Landsbanka Íslands gekk meðal annars þannig fyrir sig að það var gengið á milli og leitað að kaupendum, einhverjum sem tilbúnir væru til þess að koma að kaupum á þessum banka. Meðal annars kom til landsins sænski bankinn Enskilda sem skoðaði þetta mál vel og féll síðan frá áformum um að kaupa bankann. Ekki var það vegna þess að þáverandi ráðherrar væru í einhverju slíku vinfengi við forustumenn Enskilda-bankans að þeir teldu best og heillavænlegast fyrir sig og sína flokka að sá banki keypti Landsbankann. Auðvitað ekki.

Þegar aftur á móti varð vart við áhuga á að kaupa Landsbankann var strax sett af stað formlegt ferli til að leggja mat á þau tilboð sem höfðu borist.

Nú geta menn auðvitað rifist um það fram og til baka hvernig að slíku var staðið og alveg örugglega hafa menn lært ýmislegt af þessu ferli en það er rangt að gera því skóna, eins og svo oft er gert í umræðunni og þá skákað í því skjólinu að menn kynni sér ekki sérstaklega vel þau gögn sem fyrir liggja og þær athuganir sem nú þegar hafa verið gerðar, að það hafi verið einhver annarleg sjónarmið og að menn hafi reynt með einhverjum hætti að vinna þetta mál öðruvísi en í samræmi við bestu samvisku.

Ég ítreka að við eigum að ráðast í þessa rannsókn en ég hefði gjarnan viljað sjá í þessari þingsályktunartillögu eitthvert mat á þeim kostnaði sem við teljum líklegt að hljótist af rannsókninni. Það hefði verið heiðarlegt gagnvart þinginu að slíkt mat lægi fyrir vegna þess að við höfum séð það við aðrar rannsóknir sem hefur verið stofnað til að kostnaðurinn hefur verið nokkuð mikill, jafnvel hlaupið á hundruðum milljóna.

Á fjáraukalögum er talað um að veita 150 milljónir til að bregðast við þeirri vá sem uppi er á Landspítalanum vegna skorts á tækjum og vegna þess að ekki hefur verið endurnýjaður tækjakostur spítalans. Vegna þessa árferðis er í það minnsta rétt að setja það í nokkurt samhengi hversu miklum fjármunum við erum tilbúin að verja í þessa vinnu miðað við hvað við erum tilbúin að verja í til dæmis endurnýjun tækja á Landspítalanum. Ég er ekki þar með að segja að ekki eigi að ráðast í þetta vegna kostnaðarins en ég vil að hann liggi fyrir og að menn hafi mat á honum. Svo vonast ég til að sú mikla vinna sem hefur verið unnin af hálfu Ríkisendurskoðunar á undanförnum árum stytti mönnum leið, eins og ég segi, geri mönnum auðveldara fyrir að svara þeim rannsóknarspurningum, eins og kallað er, sem lagt er til af flutningsmönnum málsins að leitað verði svara við. Það er engin ástæða til að vinna sama verkið tvisvar ef menn hafa þá trú að Ríkisendurskoðun hafi vandað til verka sinna þegar þau voru unnin.