141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[17:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Lúðvík Geirsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er besta mál ef reyndin verður sú, eins og mátti heyra í máli hv. þm. Illuga Gunnarssonar, að hægt verði að ljúka þessu máli með miklu hraði. Ég hef verið að gera mér vonir um að það flýti fyrir að margvísleg gögn liggja fyrir og búið er að skoða ýmsa þætti málsins, að einfaldara og auðveldara sé að ná utan um þann ramma sem við horfum til.

Hitt er annað mál, og það hefur komið skýrt fram í allri umræðu og við yfirferð málsins, að hvergi liggur fyrir heildstæð mynd af öllu því sem máli skiptir. Sú mynd liggur ekki fyrir í þeim skýrslum sem Ríkisendurskoðun vann á sínum tíma, það eru takmarkaðar skýrslur. Það hefur líka komið skýrt fram, eins og ég nefndi í upphafi þessarar umræðu fyrr í dag, að bæði blaðamenn og fræðimenn sem hafa verið að fjalla um þetta mál hafa víða komið að lokuðum dyrum og alls ekki fengið aðgang að þeim gögnum sem þeir hafa leitað eftir. Bæði fjölmiðlastéttin og fræðasamfélagið hafa því staðið fyrir utan læstar dyr í þessu máli. Þar er meðal annars vikið að gögnum sem snúa að fundargerðum og öðrum pappírum sem fóru í gegnum einkavæðingarnefndina sjálfa. Þar er vikið að gögnum sem lúta að samskiptum varðandi sölu á Kaupþingi og samskiptum við margumræddan þýskan banka.

Það sem skiptir máli og skapar allt aðra stöðu en áður eru þau lög sem Alþingi samþykkti um rannsóknarnefndir. Í þeim kemur fram með skýrum hætti, í 7. gr., hvaða stöðu slík rannsóknarnefnd hefur til að sækja gögn þar sem mönnum er skylt að veita allar upplýsingar, líka þær sem eru háðar þagnarskyldu, upplýsingar sem óheimilt (Forseti hringir.) er að lögum að veita fyrir dómi nema með samþykki ráðherra. (Forseti hringir.) Allar þessar upplýsingar ber að veita rannsóknarnefnd í máli sem þessu.

(Forseti (ÁÞS): Forseti minnir hv. þingmann á að virða ræðutíma.)