141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[17:42]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því, það skiptir máli í þessari rannsókn að umrædd nefnd hafi allan aðgang að öllum gögnum þannig að enginn vafi sé á því að þar séu einhver þau álitaefni sem menn geta ekki svarað vegna þess að þeir geta ekki komist í þau gögn sem máli skipta.

Ég spurði hvort einhver dæmi væru um það hjá Ríkisendurskoðun að hún hefði rekið sig á einhver þau álitamál í vinnu sinni sem ekki hafi verið hægt að svara vegna þess að gögn hafi skort. Ég vísa til dæmis til minnisblaðs til formanns fjárlaganefndar þar sem voru einar 34 spurningar frá fjárlaganefndarmönnum um skýrsluna sem unnin var um einkavæðinguna fram til 2003, sem er umfangsmikil, sérstaka skýrslu um sölu á hlut í Landsbankanum og aðrar slíkar skýrslur sem ég tel, eins og ég hef áður sagt, að taki í raun á flestum þeim álitamálum sem komið hafa upp.

Nú kann það að vera, eins og hv. þingmaður bendir á, að fleiri spurningar séu uppi, spurningar sem enn er ósvarað, og enn og aftur ítreka ég þá afstöðu mína að það er sjálfsagt mál að leita svara við þeim. Ég hefði kosið að í tillögum og í greinargerð hefði verið farið yfir, af hálfu tillöguflytjanda, hvaða gögn liggja nú þegar fyrir og mat á þeim spurningum sem nefndin telur að þurfi að svara, þ.e. hverju af því hafi í raun verið svarað. Eins og hér kom fram hjá hv. þm. Sigríði Á. Andersen má kannski ramma þetta ögn skýrar inn til þess bæði að flýta fyrir vinnunni, draga úr kostnaði, þannig að hlutverk rannsóknarnefndarinnar sé mjög skýrt og hún viti til hvers ætlast er af henni. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Sigríði Á. Andersen að þetta er nokkuð opið.

Virðulegi forseti. Ég ætla í sjálfu sér ætla ekki að gera stóran ágreining um það. Ég segi bara, virðulegi forseti: Ástæða er til að ætla að hægt sé að vinna þetta mál hratt vegna þess að fyrir liggja fjölmargar rannsóknir Ríkisendurskoðunar (Forseti hringir.) um þetta mál og þangað er hægt að sækja töluvert mikla þekkingu og fróðleik.