141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[17:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að blanda mér aðeins í umræðuna. Þegar ég hugsa um hvernig tillagan lítur út og hvernig hún er kynnt sýnist mér að stjórnarflokkarnir og fylgitungl þeirra séu enn og aftur að reyna að dreifa athyglinni frá vandræðaganginum heima fyrir og fari nú fram með þingmál til að rannsaka enn og aftur einkavæðingu sem átti sér stað fyrir um áratug síðan.

Það er hins vegar ekkert að finna í tillögunni varðandi það að rannsaka nýjustu einkavæðinguna, einkavæðingu bankanna hjá ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Ef til vill er hægt að læra meira af þeirri einkavæðingu en af þeirri sem gerð var fyrir áratug síðan. Það er vel þess virði að rannsaka hvort flokkarnir sem stóðu að nýju einkavæðingunni hafi lært eitthvað af einkavæðingunni frá því fyrir rúmum áratug. Var jafnvel sömu aðferðum beitt í síðari einkavæðingunni og þessir flokkar hafa gagnrýnt varðandi þá fyrri? Það er ekki að heyra að vilji sé til þess að rannsaka hina síðari einkavæðingu sem ég held þó að sé full ástæða til að gera vegna þess að þar mun koma í ljós staðfesting á því sem mörg okkar hafa haldið fram, þ.e. að við nýjustu einkavæðinguna, einkavæðingu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna, var ákveðið að kasta fyrir róða hagsmunum heimilanna og smærri fyrirtækja þegar kröfuhöfum — margir kalla þá hrægamma — voru afhent lánasöfnin fyrir slikk. Það mun koma í ljós þegar nýja einkavæðingin verður rannsökuð.

Í tillögunni er ákveðin fortíðarhyggja. Enn og aftur horfa ríkisstjórnarflokkarnir um öxl, í baksýnisspeglana, og reyna að dreifa athyglinni frá öðrum málum. Margir hafa fjallað um — ég veit ekki hvað á að segja — raunverulega ástæðu hrunsins og um það hverjir voru í ríkisstjórn frá árinu 2007, sem að minnsta kosti annar stjórnarflokkurinn, Samfylkingin, vill gjarnan gleyma og ekki kannast við. Í stíl við fortíðarhyggju þeirra sem málið flytja, einkum samfylkingarmanna, ætla ég sérstaklega að rifja upp nokkur atriði tengd fortíð þessa ágæta flokks.

Mig langar … (Gripið fram í: Framsóknarflokkurinn …?) — Hann mun koma við sögu, já. Mig langar, með leyfi forseta, fyrst að grípa niður í útdrátt úr skýrslu þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, þingmannanefndarinnar svokölluðu sem skilaði inn tillögu sem var svo samþykkt hér með öllum greiddum atkvæðum:

„Stefna stjórnvalda varðandi íslenska fjármálakerfið á þessum árum fólst í því að selja eignarhluti ríkisins í bönkum og opinberum fjárfestingarsjóðum. Almennt var stefnt að því að efla sjálfstæði eftirlitsstofnana en á sama tíma átti að gæta að því að eftirlitsstarfsemin mundi ekki íþyngja fyrirtækjum um of. Þá var tekið fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar frá 23. maí 2007 að stefnt væri að því að „tryggja að fjármálastarfsemi gæti vaxið áfram hér á landi og að fjármálafyrirtækin gætu sótt inn á ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði og að útrásarfyrirtæki sæju sér áfram hag í að hafa höfuðstöðvar sínar hérlendis“.“

Samfylkingin beitti sér af afli fyrir því að þessi kafli kæmi inn í ríkisstjórnarsáttmálann við Sjálfstæðisflokkinn af því að hún var svo nátengd útrásarvíkingunum og útrásinni allri að hún gat ekki hugsað sér að leggja stein í götu þessara fyrirtækja, sem allir vita hvernig fóru svo með Ísland á endanum.

Það er meira að segja hægt að spóla örlítið lengra aftur, til ársins 2005, og rifja upp þegar einn af þingmönnum Samfylkingarinnar sagði í þessum stól, með leyfi forseta:

„Neistinn sem einkenndi fyrsta ráðuneyti Davíðs Oddssonar er löngu slokknaður. Þá fóru jafnaðarmenn fyrir breytingum á efnahags- og viðskiptalífi og EES-samningnum sem skilaði okkur [útrásinni].“

Samfylkingin var að dásama útrásina sem EES-samningurinn gerði mögulega.

Annar þingmaður Samfylkingarinnar segir sama ár, með leyfi forseta:

„Fyrsti minni hluti [fjárlaganefndar] undirstrikar að margt jákvætt er að finna í þróun efnahagslífsins á undanförnum árum. Það hefur einkennst af sköpunarkrafti og frumkvæði sem birtist glöggt í útrás fyrirtækja erlendis. Þennan þrótt má rekja til aukins frelsis og minni hafta sem lagður var grunnur að með EES-samningnum fyrir áratug. Með frumkvæði sínu að honum áttu jafnaðarmenn stærstan þátt í því frelsi sem lagt hefur grunninn að gríðarlega sterkri samkeppnisstöðu Íslands í dag. Sala bankanna var að sönnu mjög umdeild á sínum tíma. Hitt er óefað að hún leysti mikinn kraft úr læðingi í atvinnu- og efnahagslífinu. Þetta er hin jákvæða hlið efnahagsmálanna í dag.“

Þannig mætti nefna fjölmörg dæmi úr ræðum samfylkingarmanna frá þessum tíma og fram að hruninu, en eftir hrun kannast enginn samfylkingarmaður við að hafa barist fyrir EES-samningnum eða alla vega barist fyrir þeim hluta hans að opna bankakerfið.

Margir hafa einnig lýst því yfir að það hefði alltaf komið að því að bankarnir hefðu verið einkavæddir. Margir hafa líka viðurkennt á sama tíma að hugsanlega hefði mátt standa öðruvísi að því. En það er búið að rannsaka þá einkavæðingu tvisvar eða þrisvar, jafnvel oftar, ég er ekki alveg klár á því, það er búið að rannsaka hana nokkrum sinnum, en nú vilja einhverjir þingmenn hér rannsaka hana einu sinni enn. Ég segi þá: Allt í lagi. Ef þingmenn telja þeim fjármunum vel varið, ef þingmenn telja að þeir geti varið það að eyða tugum eða hundruðum milljóna í slíka rannsókn sem búið er að gera ætla ég að vona að þeir hinir sömu hafi þá kjark til að samþykkja breytingartillögu eða aðra þingsályktunartillögu sem taki á því að nýja einkavæðingin verði rannsökuð í þaula.

Það eru önnur mál sem ég tel mikilvægara að rannsaka ef halda á áfram að rannsaka hlutina hér. Í fyrsta lagi þarf náttúrlega að gera ráð fyrir því í fjárlögum að til séu peningar til að fara í rannsóknir. En það er Icesave-málatilbúnaðurinn allur sem þessi ríkisstjórn ber höfuðábyrgð á, hann þarf að rannsaka og það fyrr en síðar. Það breytir engu hver niðurstaðan verður úr dómsmálinu sem búið er að höfða að mínu viti heldur skiptir máli að rannsaka málatilbúnaðinn, hvernig haldið var á málinu frá upphafi til enda. Af því má draga mikinn lærdóm og við verðum að gera það, það er engin spurning.

Ég ítreka að ég tel að tillagan sé fyrst og fremst sett fram til að reyna að draga athyglina frá vandamálum sem herja á ríkisstjórnina og aðgerðaleysi hennar í mjög mörgum stórum málum. Sé það vilji þingsins að fara þessa leið get ég fellt mig við að fara hana að því tilskildu að nýja einkavæðingin verði rannsökuð til dagsins í dag, ef ég má orða það þannig, því að ég held að það sé ekki síður fróðlegt að sjá hvað þar kemur í ljós. Þó svo einhverjir vilji halda því fram að ekki hafi verið um einkavæðingu að ræða kemur alveg skýrt fram þegar málið er skoðað að bankarnir voru svo sannarlega einkavæddir eða afhentir einhverjum ákveðnum aðilum.

Herra forseti. Hægt er að hafa mörg fleiri orð um þetta mál. En það er ágætt að sjá að forgangsröðun þeirra sem flytja þessi mál er sú að eyða fjármunum í að rannsaka þessa áratugargömlu einkavæðingu og þeir telja að þar komi eitthvað nýtt í ljós sem við getum lært af. Ef svo er hljótum við að fagna því. Ég held hins vegar að það sé fyrst og fremst hugsað í þeim tilgangi að reyna að skaða aðra stjórnmálaflokka eða eitthvað slíkt og þá bara verður það þannig, ég er ekkert hræddur við það. Það er búið að rannsaka þetta mál ofan í kjölinn.

Það sem skiptir þó máli er að þeir sem standa að tillögunni séu jafnóhræddir við að rannsaka eigin gjörðir sem þarf þá að gera um leið og rannsókn á einkavæðingunni fer fram.